132. löggjafarþing — 27. fundur,  22. nóv. 2005.

Rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu.

288. mál
[15:16]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Málið sem hér er til umræðu, frumvarp til laga um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu, kallar á mun yfirgripsmeiri umræðu heldur en frumvarpið sjálft gefur til kynna. Hvers vegna er það svo? Jú, vegna þess að málið er angi af svo miklu stærri og viðameiri heild en fólk gæti haldið við fyrstu sýn. Þingmenn hér í þessum sal hafa verið að reyna að koma hugleiðingum um það í orð, meira og minna allt síðasta þing og aftur núna það sem af er þessu þingi. Ástæðan er sú að hæstv. iðnaðarráðherra hefur lagt hér fram frumvörp sem öll tengjast með einum og öðrum hætti.

Í fyrsta lagi frumvarp til vatnalaga, sem er risastórt mál og fjallað var um hér fyrir skemmstu.

Í öðru lagi, stórt og viðamikið frumvarp sem lagt var fram á síðasta þingi, um rannsóknir og nýtingu á jarðrænum auðlindum, sem er í raun og veru frumvarp sem ætlað er að taki við af núgildandi lögum um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu. Eins og hv. þingmaður Steingrímur J. Sigfússon gat um í ræðu sinni, var hæstv. ráðherra rekinn til baka með það frumvarp, en í staðinn kemur fram þetta frumvarp sem við ræðum hér nú og hæstv. ráðherra reynir að láta líta svo út að hér sé um afskaplega takmarkað mál að ræða sem snerti ekki hið stóra samhengi. En það er náttúrlega ljóst af þeim ræðum sem hér hafa verið fluttar, að það er ekki svo, hæstv. forseti. Þetta mál sem hæstv. ráðherra tekur hér út úr er einn veigamikill angi í hinni stóru heild. Það sem gagnrýnt hefur verið er áfergja hæstv. iðnaðarráðherra í þessum efnum, áfergjan í að sölsa undir sig og sitt ráðuneyti, jafnvel málaþætti sem alls ekki eiga þar heima. Það hefur hæstv. ráðherra verið gagnrýndur fyrir í umræðu um vatnalögin, í umræðunni um frumvarp til laga um rannsóknir og nýtingu á jarðrænum auðlindum og í umræðunni um þetta frumvarp sem við ræðum nú.

Satt að segja held ég að hæstv. ráðherra og ríkisstjórnin öll verði að fara að átta sig á því að þessi mál verða ekki slitin úr samhengi og það er ekki ásættanlegt, hæstv. iðnaðarráðherra, að þau fari hér í gegn án þess að við fáum á sama tíma í gegnum þingið, mál sem lýtur að verndarhagsmunum þessara sömu auðlinda sem við hér ræðum. Í áraraðir höfum við þingmenn í þessum sal rætt við hæstv. ríkisstjórn um annars vegar nýtingu og hins vegar vernd náttúruauðlindanna. Og hæstv. ráðherrar hafa iðulega, á tyllidögum og jafnvel ekki, fjallað um það í hástemmdu máli að auðvitað þurfi að ná sáttum um þessi mál. Þannig að þeir gera sér auðvitað fulla grein fyrir því að hér er um eitt grundvallardeilumál þjóðarinnar að ræða, eitt af stærstu deilumálum þjóðarinnar, sem þýðir ekki annað en að nálgast núna á heildstæðan hátt og nálgast á þeim nótum að það sé möguleiki að við getum náð einhverjum viðunandi sáttum. Og upphafið er auðvitað að fá að ræða þessa hluti í samhengi. Þess vegna gagnrýni ég það enn og aftur að hér skuli eiga að vaða fram með frumvarp til laga um rannsóknaleyfi á meðan við erum ekki búin einu sinni svo mikið sem að sjá uppkast af frumvarpi sem hæstv. umhverfisráðherra hefur til skoðunar í ráðuneyti sínu sem tengist inn á öll þessi mál, eins og ég hef nú farið yfir. Ég held því að ef hæstv. ríkisstjórn ætlar sér í alvöru að fylgja eftir einhverju af því sem hún hefur sagt varðandi þörfina á að ná sáttum um þessi mál, þurfi hún að temja sér önnur vinnubrögð. Það heyrir sögunni til að fara fram með því offorsi sem hér um ræðir og að slíta hlutina úr tengslum eins og hér er gert.

Hér hefur í ræðum hv. þingmanna sem á undan mér hafa talað verið farið yfir ákveðin grundvallaratriði í þessum málum. Það hefur verið spurt spurninga eins og: Hvað liggur á? Hvaða umsóknir um rannsóknaleyfi liggja fyrir í iðnaðarráðuneytinu? Ég held að það sé óhjákvæmilegt að hæstv. iðnaðarráðherra svari því áður en þessi umræða klárast um hvaða vötn sé að ræða í þessu tilfelli. Er hér verið að tala um hugsanlegt rannsóknaleyfi á Skjálfandafljóti? Ég held að öll rannsóknaleyfi á Langasjó séu komin í höfn, þau séu löngu útgefin. Eða er verið að tala um rannsóknarleyfi á Jökulsá á Fjöllum? Það er alveg sannanlegt að Torfajökulssvæðið og Brennisteinsfjöll eru núna orðin fýsileg í hugum þeirra sem vilja sækja um leyfi af þessu tagi. Við sjáum að það er svo langt seilst af orkufyrirtækjunum að það er eins og þau svífist einskis og náttúruverndarsjónarmið komast hvergi nálægt þeirra sjónarmiðum. Og til þess að náttúruverndarsjónarmið geti komast að borðinu á sama tíma og nýtingarhagsmunir eru til umræðu er algerlega nauðsynlegt að fá stofnanir umhverfisráðuneytisins að þessum málum í meira mæli en gert er ráð fyrir hjá hæstv. iðnaðarráðherra.

Ein af spurningunum sem hér hefur verið varpað fram og er þörf á að ítreka, er spurningin um ákvæði til bráðabirgða sem var í frumvarpinu eins og það var lagt fram hér á síðasta þingi í byrjun maí á síðastliðnu vori. Þar var ákvæði til bráðabirgða, sem var reyndar líka í frumvarpi um rannsóknir og nýtingu á jarðefnaauðlindum, þar sem gert var ráð fyrir því að iðnaðarráðherra mundi skipa nefnd fulltrúa allra þingflokka sem eiga sæti á Alþingi og jafnframt mundu þar vera fulltrúar frá Samorku. Iðnaðarráðherra átti svo að skipa tvo fulltrúa og hlutverk nefndarinnar átti að vera að gera tillögu um með hvaða hætti valið yrði á milli umsóknar um rannsóknir og nýtingarleyfi á grundvelli laga þessara, þ.e. laga um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu. Sömuleiðis átti þessi nefnd að marka framtíðarstefnu um nýtingu þeirra auðlinda sem lögin ná til.

Núna bólar ekkert á þessu ákvæði. Það virðist ekki eiga að stofna neina nefnd þar sem fulltrúar allra þingflokka á Alþingi eiga sæti og þar af leiðandi óttast ég að það eigi heldur ekki að marka neina framtíðarstefnu um nýtingu þeirra auðlinda sem lögin ná til. Ástæðurnar sem ég hef fyrir efasemdum mínum eru auðvitað margþættar. Ég hef gert grein fyrir ýmsum þeirra úr þessum ræðustóli áður. En fyrst kemur mér auðvitað í hug rammaáætlun ríkisstjórnarinnar um nýtingu vatnsafls og jarðvarma. Rammaáætlunin sem hæstv. ríkisstjórn ýtti úr vör 1999, undir yfirskriftinni: Maður, nýting, náttúra. Ríkisstjórnin fékk mikið hól fyrir að ýta þeirri vinnu úr vör. Hún fékk líka hól þegar skýrsla hæstv. iðnaðarráðherra var birt og hæstv. iðnaðarráðherra talaði fyrir henni hér á þingi fyrir einu og hálfu ári, ef ég man rétt. Markmið þessarar rammaáætlunar var, svo notuð séu orð ríkisstjórnarinnar, „að leggja mat á og flokka virkjunarkosti jafnt vatnsafls og háhita, m.a. með tilliti til orkugetu, hagkvæmni og annars þjóðhagslegs gildis, samhliða því að skilgreina, meta og flokka áhrif þeirra á náttúrufar, náttúru- og menningarminjar, svo og á hagsmuni allra þeirra sem nýta þessi sömu gæði. Með þessu móti sé lagður grundvöllur að forgangsröðun virkjunarkosta með tilliti til þarfa þjóðfélagsins, hvað varðar atvinnustarfsemi, varðveislu náttúrugæða, styrkingu landsbyggðar og hagsmuna allra þeirra sem nýta þessi sömu gæði með sjálfbæra þróun að leiðarljósi.“

Hæstv. forseti. Ég biðst afsökunar á að ég gleymdi að biðja um leyfi hæstv. forseta til að vitna í fréttatilkynningu frá hæstv. ríkisstjórn um rammaáætlunina þegar henni var ýtt úr vör. Hún er dagsett 9. mars 1999 og finnst eflaust á vef Stjórnarráðsins enn þann dag í dag ef vel er leitað. Hér átti sannarlega, eins og orðin sem ég hér vitnaði til segja okkur, að búa til einhvers konar framtíðarstefnu um nýtingu og vernd þessara náttúruauðlinda. Hver hefur svo orðið þróunin eða raunin í þeim efnum? Hæstv. ríkisstjórn hefur auðvitað gjaldfellt alla þessa vinnu. Hæstv. iðnaðarráðherra talaði fyrir áfangaskýrslu rammaáætlunarinnar, verkefnisstjórnin sem ég held að hafi verið skipuð 16 manns ef ég man rétt, skilaði af sér gríðarlega viðamikilli skýrslu til hæstv. ráðherra. Við ræddum hana hér á Alþingi og eins og ég sagði áðan, fékk hæstv. iðnaðarráðherra hól fyrir það. En á sama tíma … (Gripið fram í.) Ég var nú bara fyrir skemmstu, hæstv. forseti, að lesa yfir þær ræður sem fluttar voru og ég get jafnvel vitnað til minna eigin orða í þeim efnum, þar sem ég þakkaði hæstv. ráðherra fyrir að hafa flutt yfirgripsmikla ræðu um rannsóknirnar sem fóru fram á vegum vinnuhópanna í rammaáætluninni. Þó svo ég hafi í lokin gagnrýnt hana líka, fyrst og fremst fyrir að ætla ekki að halda áfram með vinnuna á sömu nótum og hún fór af stað. Og gagnrýni mín stendur enn hvað það varðar. Við í þessum sal vitum það svo sem ekki hvort hæstv. iðnaðarráðherra hefur sett á laggirnar starfshóp til að halda áfram vinnunni við rammaáætlunina. En í yfirlýsingum hennar hér á Alþingi á 133. þingi, sagði hún að vinnan mundi halda áfram og að einhvers konar verkefnisstjórn yrði sett á laggirnar sem yrði þó fámennari en sú fyrri og gert var ráð fyrir því að annar áfangi rammaáætlunarinnar um nýtingu vatnsafls og jarðvarma yrði einfaldari í framkvæmd. Ég hef löngum sagt að þar með hafi hæstv. iðnaðarráðherra verið að gengisfella vinnuna sem fór fram við fyrri hluta rammaáætlunarinnar. Ég stend alveg við þá gagnrýni.

En hæstv. iðnaðarráðherra var fagnandi þegar hún fylgdi skýrslunni um rammaáætlunina úr hlaði og kallaði hana tímamótaplagg. Ég get sannarlega tekið undir það með hæstv. ráðherra. Hún var tímamótaplagg. En það sem upp á vantar er auðvitað að hæstv. ríkisstjórn viðurkenni að síðan þurfi að stýra orkunýtingaráætlun okkar út frá þeim niðurstöðum sem liggja fyrir í rammaáætluninni.

En enn þá hefur ekkert verið ákveðið um formlega stöðu rammaáætlunarinnar, nema ég hef svo sem haldið því fram, og það virðist vera ljóst að hæstv. ríkisstjórn ætli í sjálfu sér ekkert að gera með þær niðurstöður sem verkefnisstjórnin komst að og þessir fjórir faghópar og skýrslan í raun og veru gefur okkur fyrirheit um. Þetta er ein af ástæðunum fyrir því að það er eðlilegt að maður tortryggi hæstv. iðnaðarráðherra þegar hún kemur hér fram með mál af því tagi sem við ræðum hér nú. Ég hef líka ástæðu til að tortryggja hæstv. ríkisstjórn á grundvelli náttúruverndaráætlunar sem var samþykkt á síðasta þingi þar sem við ákváðum hér í þessum sal, að friðlýsa 14 svæði í nánustu framtíð, sem öll áttu það sammerkt að vera langt í frá nokkur ógn við hagsmuni orkufyrirtækjanna. Á sama tíma var auðvitað stór og mikil krafa frá náttúruverndarfólki um að inn á náttúruverndaráætlun færu ákveðin svæði sem vitað var að orkufyrirtækin ásældust til orkunýtingar. Þannig að það á ekki að vera hæstv. iðnaðarráðherra neitt undrunarefni að mál af þessu tagi komi af stað umræðum sem þessum, það gera þau ævinlega, þau valda átökum og mér liggur við að segja illindum oft og tíðum og mér finnst í rauninni rótin vera sú að ríkisstjórnin fer hér vitlaust að, steypir öllu á stél og neitar að horfa á heildarmyndina. Ef við horfum til þeirra vatnsaflskosta sem niðurstöður verkefnisstjórnar fyrsta áfanga rammaáætlunarinnar sögðu okkur að væri til staðar, sýnist mér í sjálfu sér að þeir vatnsaflskostir sem eftir eru í virkjanlegu vatnsafli þyki afar fátæklegir. Á þeim lista sem verkefnisstjórnin skilaði af sér í skýrslunni, sýnist mér einungis tvö stærri vatnsföll vera eftir á listanum yfir óvirkjaðar ár. Og hvaða ár eru það? Jú, annars vegar Jökulsá á Fjöllum og hins vegar Hvítá í Árnessýslu. Það er auðvitað ekkert óeðlilegt þótt þingmenn spyrji hvort það séu rannsóknaleyfi út af þessum tveimur ám sem liggja fyrir í hæstv. iðnaðarráðuneyti og hvort það sé þess vegna sem svona mikið liggur á að lögleiða frumvarpið sem hér er til umfjöllunar.

Ég hef líka sagt það áður að mér finnist það ofmat bæði hjá hæstv. iðnaðarráðherra og ríkisstjórninni allri að það sé eftir svo mikið magn af óráðstöfuðu og óvirkjuðu vatnsafli að það sé í raun og veru eitthvert svigrúm hér. Ég er ekki viss um að þeir sem starfa núna við að gera annan áfanga rammaáætlunar ríkisstjórnarinnar um nýtingu vatnsafls og jarðvarma hafi úr miklu að moða í þeim efnum, kannski einhverjum smáám og þá helstu laxveiðiám Íslands. Menn ætla kannski að fara að virkja þær. Orkufyrirtækin eru kannski farin að seilast í þær, eða hvað? Ætla menn að virkja Selá í Vopnafirði, Eystri-Rangá, Vatnsdalsá í Forsæludal eða Hvítá í Árnessýslu? Þar eru bæði efri og neðri hluti mögulegir virkjunarkostir.

Hæstv. forseti. Auðvitað er ekki raunhæft að tala um miklar virkjanir í vatnsaflinu, það sem eftir stendur er ekki það bitastætt í sjálfu sér nema hæstv. ríkisstjórn ætli að fórna einhverjum af okkar alstærstu og dýrmætustu náttúruauðlindum.

Eins og komið hefur fram í umræðunni, hæstv. forseti, er krafa þingmanna auðvitað sú að hér séu hagsmunir allra þátta vegnir saman, nýtingarþættir og náttúruverndarþættir. Það er óásættanlegt að keyra áfram þrjú veigamikil frumvörp um orkunýtingu án þess að við fáum á sama tíma að fjalla um verndarhagsmunina sem þau sömu mál í raun og veru tengjast.

Það er líka óásættanlegt að hæstv. iðnaðarráðherra skuli setja fram frumvörp þar sem hún talar eins og umhverfisráðuneytið sé búið að sætta sig við allt sem í málum hennar er fólgið. Hæstv. umhverfisráðherra lætur ekki svo lítið að vera við þessa umræðu sem auðvitað væri eðlilegt vitandi hversu miklar deilur eru um þessi mál og vitandi að frumvarpið um rannsóknir og nýtingu á jarðrænum auðlindum fól í sér að gríðarlega stór hluti af málefnum umhverfisráðuneytisins yrði settur undir iðnaðarráðuneytið. Ég trúi því ekki fyrr en í fulla hnefana að hæstv. umhverfisráðherra ætli ekkert að berjast í þessum efnum fyrir þeim málaflokki sem henni var falinn í ríkisstjórninni. Ég sé ekki betur en að hæstv. iðnaðarráðherra telji það vera eðlilegt að allt vatn í samfelldu og viðvarandi vatnslagi í vatnsmettuðum jarðlögum, grunnvatn og yfirborðsvatn, orkulindir allar, hvort heldur er í föstu, fljótandi eða loftkenndu formi og án tillits til hitastigs, eigi bara að heyra gagnrýnislaust undir iðnaðarráðuneytið. Og ekki einasta það heldur allur jarðvarmaforðinn í jarðlögunum, varmastraumur úr iðrum jarðar og heitt grunnvatn sem flytur jarðvarmaorku. Svo ætlast hún til að öll gosefni og önnur steinefni, málmar, málmblendingar og málmsteindir, kol, jarðolía, jarðgas og önnur nýtanleg efni sem finnast kunna á landi og í jörðu heyri undir iðnaðarráðuneytið. Ég sé ekki annað en að hæstv. iðnaðarráðherra sé farin að seilast svo langt út fyrir sitt verksvið að það sé fullkomlega eðlilegt að málflutningur hennar kalli á þá gagnrýni og þau sterku viðbrögð sem raun ber vitni hér.

Ef hæstv. ráðherra væri að ræða um sjálfbæra þróun og sjálfbærni í orkumálum væri ekki sæmandi að fara fram með þau frumvörp sem hér er verið að fara fram með því þá yrði hæstv. ráðherra að viðurkenna að hér séu hlutirnir svo tengdir að þeir þurfi að fylgjast að í gegnum þingið.

Nýafstaðið er umhverfisþing þar sem mjög mikið var talað um orkunýtingu og sjálfbæra þróun og stefnu í orkumálum. Þar bar á góma hugmyndafræðina um sjálfbæra orkustefnu og ég held að væri sómi að því ef hv. alþingismenn fengju að ræða hér hugmyndafræði um sjálfbæra orkustefnu í stað þess að þurfa að ræða nýtingarásælni hæstv. iðnaðarráðherra og ásælni í alla þá málaflokka sem geta tengst nýtingu á jarðrænum auðlindum. Ég sé ekki annað en að hæstv. ráðherra viðurkenni, í orði kveðnu gerði hún það í andsvari, að hér sé um flókin mál að ræða sem þurfi yfirlegu. Hún viðurkenndi að þetta væri flókið mál en á sama tíma virðist hæstv. ráðherra liggja verulega á að gefa út rannsóknarleyfi hægri vinstri eins og frumvarpið sem við ræðum hér á að heimila henni.

Ég spyr: Ef málin eru eins flókin og hæstv. ráðherra lét í skína í ræðu sinni áðan, hvers vegna má þetta mál þá ekki hinkra og fylgjast að með hinum? Hvað er það sem liggur svona á? Hverjir standa og banka, berja á dyr iðnaðarráðuneytisins með hugmyndir eða óskir um að fara að nýta sér möguleikana á að rannsaka vatnsaflið okkar á þeim nótum sem þetta heimildarfrumvarp fjallar um? Ég held að hæstv. ráðherra skuldi okkur það að segja okkur meira. Hvað er það sem hastar? Af hverju liggur svona á?