132. löggjafarþing — 27. fundur,  22. nóv. 2005.

Rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu.

288. mál
[15:36]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil fyrst geta þess í sambandi við rammaáætlun að annar áfangi er hafinn og stefnt er að því að honum ljúki árið 2009. Farið er aðeins öðruvísi í þetta núna en áður. Stýrihópur er starfandi með þremur einstaklingum sem hafa mikla þekkingu á þessum málum. Síðan eru tveir starfshópar, annar fjallar um landslag og hinn um jarðvarmann. Þetta er því allt í gangi. Ég hélt að það hefði komið fram opinberlega en það er þá a.m.k. eins gott að það komi fram.

Af hverju liggur svona mikið á? spyr hv. þingmaður. Þá vil ég geta þess að m.a. í tengslum við rammaáætlun skiptir máli að orkufyrirtækin rannsaki. Það var þannig með fyrsta áfanga að orkufyrirtækin lögðu fram mikilvæga rannsóknarskýrslu sem skiptir máli í sambandi við þá vinnu og þannig er einnig um annan áfanga. Það er ein ástæða þess að mikilvægt er að þetta frumvarp verði að lögum og ég hef farið yfir aðra þætti sem það varðar.