132. löggjafarþing — 27. fundur,  22. nóv. 2005.

Rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu.

288. mál
[15:37]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er ágætt til þess að vita að hafin skuli vinna við seinni áfanga rammaáætlunar en ég lýsi áhyggjum mínum af því að hún skuli vera í svo fámennum hópi, einungis þrír menn í stýrihópi og tveir starfshópar sem ég á svo sem eftir að komast að hverjir skipa. Ég sé því ekki annað en að gagnrýnisorð mín í þessum efnum standi. Ég tel að halda hefði átt áfram með seinni áfangann á svipuðum nótum og fyrri áfangann, þ.e. að vísindamenn úr öllum geirum yrðu kallaðir til þannig að vinnan gæti talist heildstæð og yfirgripsmikil.

Varðandi orð hæstv. ráðherra um hvað hasti þá sé ég ekki enn af hverju hæstv. ráðherra sættir sig ekki við eða horfist ekki í augu við það að hér eru nýtingarhagsmunirnir af ólíkum toga. Annars vegar nýtingarhagsmunir þeirra sem vilja nýta náttúruauðæfi landsins til orkuframleiðslu og hins vegar nýtingarhagsmunir þeirra sem vilja nýta náttúruna ósnortna. Þetta eru hagsmunir sem skarast og hagsmunir sem stangast á. Ég skil ekki af hverju hæstv. ráðherra reynir ekki að ná sáttum á milli þessara sjónarmiða og leyfi þá í því augnamiði þeim frumvörpum sem hér um ræðir að fylgjast að í umfjöllun í gegnum þingnefndir.