132. löggjafarþing — 27. fundur,  22. nóv. 2005.

Rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu.

288. mál
[15:41]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Hér er til umræðu frumvarp til laga um breytingu á lögum um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu sem felur í sér, eins og hér hefur svo rækilega komið fram, heimild iðnaðarráðherra til þess að veita rannsóknarleyfi á vatnsföllum í því augnamiði að þau geti síðan orðið að virkjunarleyfum.

Það hefur líka komið fram hversu mikla áherslu hæstv. ráðherra leggur á að koma þessum málum áfram. Þetta er liður í álversumræðum iðnaðarráðuneytisins, í þeim viðræðum sem iðnaðarráðuneytið nú stendur í um frekari álversbyggingar hér á landi. Eins og kom fram í máli ráðherrans er nauðsynlegt að koma þessum málum í fastari farveg, þann farveg að rannsaka og mega síðan virkja þau vatnsföll sem ekki eru þegar orðin bundin í virkjunum.

Í greinargerð með frumvarpinu segir, og ég vek athygli á því, herra forseti, að þetta er frumvarp iðnaðarráðherra sjálfrar: „Samkvæmt upplýsingum frá iðnaðarráðuneytinu hefur komið í ljós að orkufyrirtækin eru tregari til að stunda rannsóknir á vatnsafli vegna þessa en heppilegt getur talist.“ Þ.e. að miðað við þau lög sem hafa verið hafa verið gefin út rannsóknarleyfi til að mega rannsaka vatnsföll til virkjana en það hafi ekki sjálfkrafa leitt til virkjunarleyfa. Þetta hefur á máli iðnaðarráðuneytisins orðið til þess að orkufyrirtækin eru tregari en áður til að fara út í það.

Ég held líka að mikilvægt sé að velta fyrir sér í hvaða stöðu við erum í dag varðandi stóriðjuframkvæmdir og stórvirkjanaframkvæmdir. Við erum með í gangi eina stærstu byggingu vatnsaflsvirkjunar hér á landi og þótt víðar væri leitað, Kárahnjúkavirkjun, og henni tengdri er verið að undirbúa og byggja eitt af stærstu álverunum Það er því ekki svo að ekki séu í gangi stór verk á sviði vatnsaflsvirkjana. Ég held að ég deili skoðunum með mörgum landsmönnum í því hvort ekki sé rétt að ljúka þessum virkjunarframkvæmdum, Kárahnjúkavirkjun, áður en við förum að ráðast í að gefa út frekari virkjunarleyfi í vatnsföllum landsins?

Við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs vorum andvígir því að ráðist væri í Kárahnjúkavirkjun, bæði af umhverfisástæðum og eins að þar væri verið að ráðast í mannvirkjagerð sem seint eða aldrei mundi skila þjóðhagslegum ábata fyrir það fjármagn sem í það var lagt. Af báðum þessum ástæðum væri þetta óráð. En úr því að þessar framkvæmdir eru komnar í gang og með þeim hörmungum sem við höfum mátt upplifa er þá ekki rétt að við ljúkum þessum framkvæmdum áður en iðnaðarráðherra Framsóknarflokksins fær leyfi til að gefa út frekari virkjunarleyfi í vatnsföllum landsins? Ég spyr, herra forseti: Er ekki rétt að reyna að komast í gegnum það sem nú er í gangi áður en við förum í frekari vatnsaflsvirkjanir í jökulfljótum landsins sem þetta frumvarp snýr að?

Ef við víkjum aftur að frumvarpinu þá hefur hæstv. ráðherra ítrekað verið spurður: Hvað liggur svona á? Hvað liggur svona á að ráðherrann fái heimild til að gefa út rannsóknar- og virkjunarleyfi í vatnsföllunum? Hvað liggur svona á að það megi ekki bíða þess að við ljúkum Kárahnjúkavirkjun eða þess að áætlun um vatnsafls- og jarðvarmavirkjanir og forgangsröðun vatnsfalla til virkjunar verði raunverulega gerð? Eins og nú er er ráðist í virkjunarframkvæmdir í vatnsföllum óháð því hvað sú rammaáætlun lagði til. Það er ekki neitt samhengi þar á milli, samanber að Kárahnjúkavirkjun var sú virkjun sem var neðst á listanum og var af umhverfisástæðum talin hreint hervirki. En samt var ráðist í hana.

Það kom fram í andsvari hjá hv. þm. Birki Jóni Jónssyni hvers vegna menn þyrftu að flýta sér. Jú, vegna þess að einhverjir aðilar biðu eftir því að fá þessum leyfum úthlutað og var þá talað um heimaaðila. En bíðum við: Hæstv. ráðherra sagði að þetta væru almenn lög, eða var ekki svo, herra forseti, að þetta væru almenn lög? Þetta væru ekki lög sem sneru að einhverjum ákveðnum virkjunarkostum. Ég heyrði ekki betur. Svo kemur hv. formaður iðnaðarnefndar og segir: Þetta frumvarp snýr að ákveðnum framkvæmdum sem ákveðnir aðilar í heimahéraði eða annars staðar hafa óskað eftir. Ég held að þeir þurfi nú að tala betur saman, hæstv. ráðherra og hv. formaður iðnaðarnefndar.

En hvað hefur breyst í frumvarpinu frá því að það var lagt fram í vor? Jú, það hefur komið fram að til stóð að skipa nefnd sem átti að fara yfir þessi mál og samræma og gera tillögur um reglur til þess að fara eftir við úthlutun rannsóknar- og virkjunarleyfa. Nefndin átti að vinna úthlutunarreglur sem ráðherra gæti farið eftir. En breytingin er á þann veg að umræddri nefnd og þeirri vinnu sem hún átti að inna af hendi er kastað út. Málið er alfarið fært í hendur ráðherra.

Hvað er það annað sem hefur breyst, herra forseti?

Í greinargerðinni segir, með leyfi forseta:

„Er því talið nauðsynlegt að tryggja að aðeins einn aðili fái rannsóknarleyfi á hverju svæði og jafnframt að hann geti fengið rannsóknarkostnað sinn endurgreiddan sé nýtingar- eða virkjunarleyfi veitt öðrum aðila. Einnig verður að ætla að það sé þjóðhagslega óhagkvæmt að fleiri en einn aðili kosti sams konar rannsóknir á sömu stöðum þegar ljóst er að aðeins einu virkjunarleyfi verður úthlutað.“

Í 2. gr., og þar kemur breytingin, stendur:

„Þó er heimilt að veita fleiri en einum aðila slíkt leyfi sameiginlega hafi þeir staðið saman að rannsóknarleyfisumsókn og gert með sér samning um skiptingu rannsóknarkostnaðar.“

Þetta er breytingin sem gerð er á frumvarpinu frá því að það var flutt í vor.

Að hverju var hv. formaður iðnaðarnefndar, Birkir Jón Jónsson, að ýja? Hann var að ýja að þeim ágreiningi sem var um virkjunarleyfin í jökulánum í Skagafirði í vor þar sem ljóst var að bæði Landsvirkjun og fyrirtæki Kaupfélags Skagfirðinga, hlutafélag á móti Rarik, höfðu sótt um að fá þetta rannsóknar- og virkjunarleyfi og samkvæmt þeim lögum sem þá giltu var einungis hægt að veita einum slíkum aðila leyfi. En nú er búið að handsníða þetta frumvarp að því sem þar var uppi. Hv. formaður iðnaðarnefndar, Birkir Jón Jónsson, var að ýja að því hér að samkomulag virðist komið á milli heimaaðila, eins og hann kallar þá, þ.e. Kaupfélags Skagfirðinga og Rariks, og Landsvirkjunar um að sækja um leyfi saman og þess vegna er þetta frumvarp flutt. Svo einfalt virðist málið vera, a.m.k. ef marka má orð hv. þm. Birkis Jóns Jónssonar í andsvari.

Það kom einnig fram að hitt fljótið er Skjálfandafljót, þannig að þetta frumvarp virðist vera meira eða minna sniðið að þessum tveimur fljótum — það þarf þess vegna að hraða því að koma þessu áfram.

Það er því alveg ljóst að ekki er verið að flytja frumvarp til almennra laga enda hefur hv. formaður iðnaðarnefndar komið rækilega inn á það í andsvari sínu að þetta er sérgreint, handafgreiðsla gagnvart ákveðnum afgreiðslum. Þetta er liður í þeim verkefnum sem iðnaðarráðuneytið stendur að í samningi um frekari álverksmiðjur hér á landi.

Mun nú flestum þykja orðið nóg um álbræðslur, álbræðsluna hér í Straumsvík og á Grundartanga, sem er í hraðri stækkun, og auk þess eru þeir ekki búnir að byggja fyrir austan, þar er stór verksmiðja hjá Alcoa í byggingu. En engu að síður er iðnaðarráðuneytið orðið formlegur aðili að undirbúningi að byggingu tveggja nýrra álvera í Helguvík og á Norðurlandi, auk þess sem stækkunin liggur fyrir, beiðni um ferlistækkun í Straumsvík og frekari stækkun á Grundartanga. Ég held, herra forseti, að öllum landsmönnum sé ofboðið. Gott og vel að fá einhvern hluta okkar atvinnulífs í álverksmiðjum til þess að auka fjölbreytni og skjóta fleiri stoðum undir atvinnulífið. En þegar áliðnaðurinn á að fara að ryðja burt atvinnulífi í landinu, öllum öðrum útflutningsgreinum, og binda auk þess fallvötnin og aðrar náttúruauðlindir þá held ég að fólki sé ofboðið.

Hvað ætli það sé nú sem reki á eftir hæstv. ráðherra? Jú, fyrir norðan var að tilhlutan iðnaðarráðherra knúinn í gegn samningur á milli sveitarfélaga á Norðurlandi og iðnaðarráðuneytis og Alcoa um úttekt á mögulegu staðarvali fyrir álverksmiðju á Norðurlandi og jafnframt líka orkukostum fyrir slíkt álver. Nú er sú vinna, áhugi ráðherrans á að koma þessu á, farin að krefjast þess að fyrir liggi úthlutun á virkjunarkostum í jökulánum í Skagafirði og í Skjálfandafljóti og kannski víðar, til þess að hægt sé að halda áfram samningsgerð um álver á Norðurlandi. Þess vegna er verið að knýja þetta í gegn. Álversæðið eða áltrúin, eins og hæstv. forsætisráðherra vildi kalla þetta, á sér engin takmörk í Framsóknarflokknum, áltrúin. Maður hefði haldið miðað við stöðu atvinnumála að ráðherrann mundi setja eitthvert annað mál hér fyrr á dagskrá. Við höfum verið að ræða hér stöðu atvinnumála, stöðu útflutningsgreinanna, sem eru að kikna undan áhrifum stóriðjunnar, hinu háa gengi, ruðningsáhrifum stóriðjunnar. Ruðningsáhrifin geta líka verið af hinu góða, sagði hæstv. iðnaðarráðherra við Vestfirðinga þegar verið var að loka fyrirtækjum þeirra vegna ruðningsáhrifa stóriðjunnar. En áfram skal haldið.

Ég velti fyrir mér, herra forseti, hvað þessi álstaðarvalsrannsókn og vinna Norðlendinga og iðnaðarráðuneytis kostar? Ég vil gjarnan að iðnaðarráðherra upplýsi hvað þessi samningur kostar í peningum, því að mér er nær að halda að með þessari álstefnu gagnvart Norðlendingum sé í rauninni verið að taka þá í gíslingu. Það er verið að reyna að taka Skagafjörð í gíslingu með því að hóta þeim að Skagafjarðarvötnin, jökulárnar, verði tekin í virkjun fyrir álver. Ferðaþjónustuaðilar og aðrir sem nýta og vilja nýta jökulárnar með öðrum hætti, njóta þeirra með öðrum hætti, eru settir í uppnám því að hver vill lána fjármagn til ferðaþjónustufyrirtækis sem nýtir árnar og fljótin í óbreyttu ástandi ef stefna ríkisins er að stífla þær og eyðileggja þá möguleika? Með þessari stefnu sinni er iðnaðarráðherra í raun og veru að taka þessa aðila í gíslingu.

Akureyringar, Eyfirðingar — hefði nú ekki verið nær hjá hæstv. iðnaðarráðherra, þingmanni Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi, að beita sér fyrir auknu fjármagni til Háskólans á Akureyri eða styrkja innviði rannsóknar- og háskólastarfs frekar en að eyða fjármununum í að troða álverum upp á Norðlendinga og stífla og virkja fljótin þeirra, náttúruperlurnar þeirra? Hefði það ekki skapað meiri atvinnu og verið meira í takt við vilja fólksins ef menn hefðu beitt sér í að efla háskólann og rannsóknarumhverfi hans? Nei, Háskólinn á Akureyri verður að loka deildum en peningarnir, fjármunir ríkisins, eru settir í að rannsaka möguleika á álveri og stórvirkjunum. Þetta er forgangsröðun Framsóknarflokksins í atvinnumálum landsmanna.

Þingeyingar, Húsvíkingar, Mývetningar — sem hafa á margan hátt verið í forustusveit í uppbyggingu á náttúru- og menningartengdri ferðaþjónustu og unnið þar stórvirki. Það vita allir að stóriðjustefnan, virkjunarstefnan, gengur þvert á hagsmuni ferðaþjónustunnar. Þeir hagsmunir fara ekki saman.

Hefði það ekki verið betra að hæstv. iðnaðarráðherra, ráðherra byggðamála, hefði sett sömu fjármuni og nú er verið að leggja í að rannsaka álver við Húsavík í að styrkja stoðkerfi ferðaþjónustunnar á umræddu svæði. Hefði ekki verið betra að setja meiri kraft í Þekkingarsetrið á Húsavík, setja nokkur hundruð millj. kr., sem er bara brot af meðgjöf ríkisins með álveri og stóriðjuframkvæmdum, í að styrkja stoðkerfi ferðaþjónustunnar í Þingeyjarsýslu frekar en að halda Þingeyingum í gíslingu? (Iðnrh.: Hvað finnst Þingeyingum sjálfum?) Ég hygg að þeir mundu frekar vilja fjármuni í ferðaþjónustu og þekkingariðnað yrði þeim boðið að velja á milli þess og álvers frá iðnaðarráðherra Framsóknarflokksins. Ég er reyndar ekki í nokkrum vafa um það. (Iðnrh.: Vinstri menn vilja álver.)

Hæstv. iðnaðarráðherra blæs hins vegar á stöðu atvinnugreinanna, blæs á stöðu ferðaþjónustunnar, sem er nú að blæða út fyrir stóriðjustefnuna. Það eina er álver, álver, álver, álver, álver. (Iðnrh.: Þóknast vinstri mönnum.) Hæstv. iðnaðarráðherra þóknast vinstri mönnum? Það er gott hjá hægri flokknum, Framsóknarflokknum, að vera farinn að þykjast þóknast vinstri mönnum með því að byggja álver. Það sýnir veruleikafirringu hæstv. iðnaðarráðherra.

Það er ágætt að vitna hér, frú forseti, í skýrslu sem hæstv. iðnaðarráðherra og ráðuneytið hefur látið vinna um hátækniiðnaðinn, sem líka er að blæða út vegna stóriðjustefnu ríkisstjórnarinnar.

Í þeirri skýrslu segir, með leyfi forseta:

„Hlutdeild stóriðju í verðmætasköpun er aðeins um 1,2%, sem skýrist af miklum innflutningi á aðföngum til starfseminnar. Í álveri má áætla að 70% virðisaukans fari úr landi.“

En þetta er það sem hæstv. iðnaðarráðherra vill leggja upp sem aðalatriðið og ekkert skal til sparað — fórna jökulánum í Skagafirði, Skjálfandafljóti og hvar það nú er. Það er þó athyglisvert að í þessu hefti, úttekt iðnaðarráðuneytis, um hátækniiðnað og þróun er hvergi minnst einu orði á ferðaþjónustu enda er vistvæn, menningartengd ferðaþjónusta mesta andstæðan við álvers-, virkjunar- og stóriðjuæði Framsóknarflokksins. (Forseti hringir.) Þess vegna er ekki minnst á ferðaþjónustuna.