132. löggjafarþing — 27. fundur,  22. nóv. 2005.

Rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu.

288. mál
[16:50]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Það var athyglisvert hversu mjög hæstv. ráðherra og kannski ekki síður formaður iðnaðarnefndar, hv. þm. Birkir J. Jónsson, kveinkuðu sér undan því að þetta mál, þetta litla frumvarp sem svo lítur út fyrir að vera á yfirborðinu, var sett í sitt rétta samhengi. Sett inn í samhengi um stóriðjustefnu og álstefnu ríkisstjórnarinnar. Það var greinilega ekki vinsælt á þeim bæjum að draga upp heildarsamhengi hlutanna svo maður minnist ekki á að vekja athygli á þeirri staðreynd að hæstv. ríkisstjórn byrjar hér eins og venjulega á öfugum enda og skilur allt eftir sem lýtur að umhverfismálum og náttúruvernd, ýtir því út af borðinu, ryður því út úr þessum frumvörpum sínum.

Mikillar tilhneigingar gætir hjá hæstv. ríkisstjórn, sérstaklega hjá hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra og talsmönnum Framsóknarflokksins, til að stilla málum þannig upp: Það er allt eða ekkert. Annaðhvort styðja menn stóriðju, hina blindu, óheftu stóriðjustefnu ríkisstjórnarinnar, eða þeir eru algjörlega á móti öllu slíku. Það er allt eða ekkert. Og ég lít svo á að Sjálfstæðisflokkurinn styðji álstefnu Framsóknarflokksins þangað til annað kemur í ljós. Það heyrist ekki múkk í neinum sjálfstæðismanni. Valgerður Sverrisdóttir, hæstv. iðnaðarráðherra, er því væntanlega andlegur leiðtogi þeirra í þessum efnum

Þar sem við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði leyfum okkur að hafa efasemdir um eða vera beinlínis andvíg ýmsum virkjunum — teljum sumar virkjanir, t.d. Kárahnjúkavirkjun sem nú er verið að reisa, gjörsamlega óverjandi vegna hinna miklu óafturkræfu umhverfisspjalla — erum við bara á móti virkjunum. Við erum samt sem áður sammála faglegri matstofnun Íslendinga, Skipulagsstofnun, sem gaf framkvæmdinni við Kárahnjúka, eins og kunnugt er, falleinkunn sem var síðan snúið við með pólitísku handafli. En við erum bara á móti virkjunum. Það sagði hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra hér. Spurði aftur og aftur: Hvað má þá virkja? (Gripið fram í.) Já, ég skal koma með svarið. Hv. þm. Birkir J. Jónsson stillti dæminu þannig upp: Ef menn styðja ekki álversáform ríkisstjórnarinnar þá eru menn á móti atvinnuuppbyggingu á viðkomandi svæðum. (BJJ: Er það ekki atvinnuuppbygging?) Jú, það er ein tegund hennar, en það er ekki það eina sem er í boði, eða er það? (Gripið fram í.) Er það þá þannig eftir allt saman, þegar dæminu er stillt svona upp, að það sannist að menn sjá enga aðra möguleika en álver, ekkert annað til atvinnuuppbyggingar? Ef allir sem andæfa þeim eru stimplaðir almennir andstæðingar atvinnuuppbyggingar er um leið verið að segja: Það er ekkert annað til.

Ég leyfi mér að votta Framsóknarflokknum samúð mína. Ég votta Framsóknarflokknum samúð mína af þessari hrottalegu málefnafátækt. Það er eiginlega ekki hægt að komast að annarri niðurstöðu en þeirri að Framsóknarflokkurinn sé um þessar mundir ómálefnalegasti stjórnmálaflokkur Íslands. Ég get ekki komist að annarri niðurstöðu. Ég hef margar fjörurnar sopið í orðaskiptum á Alþingi og ég man varla eftir í annan tíma, nema ef helst skyldi vera fyrstu ár mín á Alþingi þegar maður var að kljást við hörðustu hægri mennina í umræðum um utanríkismál, brennimerkta af anda kaldastríðsáranna, jafnhrottalega átakanlegri tilhneigingu til fullkomlega ómálefnalegrar nálgunar eins og hér gætir hjá Framsóknarflokknum.

Hefur hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra einhverja minnstu ástæðu til að ætla að Vinstri hreyfingin – grænt framboð sé almennt á móti virkjunum? Bara almennt á móti því að virkja? (Gripið fram í.) Er það mjög líkleg nálgun? Er það ekki um það bil jafnfáránlegt eins og þegar formaður Framsóknarflokksins, Halldór Ásgrímsson, sem þjóðin hefur ákveðnar skoðanir á, stóð hér í þessum ræðustóli og sagði að Vinstri hreyfingin – grænt framboð væri á móti framförum. Hún væri örugglega eini stjórnmálaflokkurinn undir sólinni sem nokkurn tímann hefði verið stofnaður í samanlagðri stjórnmálasögu heimsins sem gengi fram undir þeim formerkjum að vera á móti framförum. Þá kemur auðvitað að því að menn skilgreina hlutina með mismunandi hætti. Fyrir einum eru það framfarir sem annar telur afturför. Það að rústa niður velferðarkerfinu á Íslandi og skera þar niður við trog eru framfarir í augum eins en afturför í augum annarra, er það ekki? Hið sama á við um stóriðjustefnuna og þau hrottalegu ruðningsáhrif og neikvæðu áhrif sem hún hefur í efnahags- og atvinnulegu tilliti og blasa við okkur þessa dagana. Svo maður tali ekki um umhverfisáhrifin. Þetta finnast sjálfsagt einhverjum vera framför en öðrum afturför.

Ég hef oft rætt um orku- og virkjunarmál á Alþingi þau 22 ár sem ég hef verið hér. Það er víða til á prenti þar sem ég fer yfir þessi mál og bendi á hversu góða möguleika Íslendingar eigi á að stunda sjálfbæran orkubúskap. Það er hægðarleikur fyrir okkur Íslendinga að fullnægja okkar þörfum, öllum okkar almennu þörfum og þörfum í þágu almenns iðnaðar, án þess að ráðast í neinar af þeim umdeildu virkjunum sem mestum deilum hafa valdið á Íslandi síðustu ár. Ætli við séum alveg ein á ferð, þingmenn Vinstri grænna, að hafa efasemdir um þær fórnir í íslenskri náttúru sem óhefta stóriðjustefnan er að kalla yfir okkur og á eftir að kalla yfir okkur ef öll áformin um 12–14 þús. tonna framleiðslu á áli hér innan 5–10 ára eiga að ganga eftir? Ætli það muni ekki fleiri en við sjá svolítið eftir Langasjó, sjá svolítið eftir Þjórsárverum, sjá svolítið eftir Aldeyjarfossi, sjá svolítið eftir gljúfrunum með jökulvötnunum í Skagafirði? Jú, ég held að það verði fleiri en við fimm, þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. Skyldi því Framsóknarflokkurinn ekki aðeins þurfa að líta í eigin barm, velta því fyrir sér hvort þessi grátlega ómálefnalega og ómerkilega nálgun, að reyna með svona einföldum hætti að gera mönnum uppi skoðanir, (Iðnrh.: ... er svarið?) endurspeglist kannski í því trausti (Iðnrh.: Hvaða virkjanir ...?) sem menn bera til flokksins í skoðanakönnunum. Kannski það sé þannig að formaður Framsóknarflokksins (Gripið fram í: Hvernig fóru síðustu kosningar?) standi jafnágætlega og raun ber vitni með þjóðinni, m.a. vegna þess að fólk sér í gegnum svona málflutning.

Hv. þm. Sigurjón Þórðarson benti réttilega á, og ég kom líka inn á það í minni tölu, að margar meira og minna fullbúnar virkjanir eða virkjunarkostir liggja á lager. Veitt hafa verið rannsóknarleyfi, framkvæmdarleyfi eða nýtingarleyfi fyrir mörgum virkjunum. Þar má t.d. nefna Hellisheiðarsvæðið og að fullnýta Kröflusvæðið. Ég hef sagt áður í þessum ræðustól: Það svæði er sjálfsagður virkjunarkostur þegar búið er að fara inn á það og opna það upp, bæði í umhverfislegu tilliti og hvað hagkvæmni varðar, það er sjálfsagt að fullnýta það þegar við þurfum á orkunni að halda til einhverra þeirra þarfa sem við erum sammála um.

Búðarhálsvirkjun — bráðhagkvæm rennslisvirkjun sem nýtir þær miðlunarframkvæmdir sem komnar eru á Þjórsársvæðinu, sjálfsögð virkjun. Ég er ekki á móti henni, ég styð hana að því gefnu að við þurfum á orkunni að halda til einhverra skynsamlegra nota. Neðri virkjanirnar í Þjórsá eru mjög hagkvæmar vegna þess að þær nýta alla miðlunina sem fyrir er ofar í Þjórsársvæðinu. Núpavirkjun og síðan Urriðafossvirkjun eru að vísu ekki án umhverfisfórna. Það þarf vissulega að fara vel yfir það, en að breyttu breytanda eru þær mjög eðlilegur virkjunarkostur áður en menn ráðast í ný og óröskuð svæði. Að fullnýta Nesjavallasvæðið, auðvitað, frekar en að fara í Brennisteinsfjöll eða Torfajökulssvæðið, að sjálfsögðu. Úr því sem komið er er einboðið að fullnýta svæði eins og Nesjavelli. Ég styð það. Þarf hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra fleiri virkjunarkosti? Margar hagkvæmar beinar rennslisvirkjanir í bergvatnsám sem valda sáralitlum umhverfisáhrifum og eru afturhverfar í þeim skilningi að það má fjarlægja stíflurnar, taka rörin niður og hleypa vatninu aftur í sinn farveg — sjálfsagðar.

Í skýrslu hæstv. ráðherra eru taldar upp smávirkjanir upp á samtals 7,2 megavött. Sumar þegar byggðar, aðrar í vændum. Þær eru að mörgu leyti sjálfsagður kostur. Hagkvæmt að tappa smáframleiðslu inn á dreifikerfin, það dregur úr tapi í kerfinu o.s.frv. Alveg sjálfsagt. Menn hefðu miklu fyrr átt að horfa á möguleikann á að taka smærri virkjanir í bland inn í kerfið og það væri hagkvæmari rekstur í dag ef stórvirkjanastefnan hefði ekki ráðið lögum og lofum. Það hefur aldrei mátt minnast á að ráðast í minni virkjanir sem féllu að þörfum innlenda markaðarins. Nei. Það hefur alltaf þurft að vera þetta stóra, stóra. Reyndar er hrottalegt fyrir hæstv. ráðherra að vera hér með skýrslu þar sem stendur á bls. 57 í skýrslunni um raforkumál:

,,Undanfarin ár hafa verið lífleg í framkvæmdum og rannsóknum á orkulindum landsins.“

Það stemmir illa við lýsinguna í frumvarpinu á hinni miklu tregðu og á því að ekki sé nóg að gert. Það stendur því ekki steinn yfir steini og eitt rekur sig á annars horn. En mergurinn málsins er þessi: Framsóknarflokkurinn er gjörsamlega helfrosinn í álvæðingu, í álæðisstefnu sinni, kemst ekki frá henni. Þrátt fyrir að nú blasi við okkur að það er verið að ryðja öðru atvinnulífi um koll í landinu skal haldið áfram og hrekja síðustu leifarnar af þekkingarfyrirtækjum, útflutnings- og samkeppnisiðnaði úr landi, leggja þess vegna niður fiskvinnslu og ferðaþjónustu. Öllu skal til kostað til að stóriðjustefna Framsóknarflokksins fái að hafa sinn gang.