132. löggjafarþing — 27. fundur,  22. nóv. 2005.

Rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu.

288. mál
[17:00]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hugsa oft um það þegar ég hlusta á hv. þingmann, formann Vinstri grænna, hvað þjóðin má vera þakklát fyrir að hann hefur ekki mikil völd í þessu landi og tapaði miklu fylgi í síðustu kosningum og hann hefur nú ekki náð sér eftir það. (SJS: Tapaði minna en Framsókn.) Hann hefur ekki náð sér eftir það enn þá. Hann tapaði manni meðan framsókn hélt sínum. Það hefur hv. þingmaður ekki komist yfir enn þá og er kannski skiljanlegt.

Það var auðheyrt á hans málflutningi hér að hann vill bara virkja sunnan lands. Hann er þingmaður Norðausturkjördæmis þar sem er mikil uppbygging, þ.e. á Austurlandi vegna orkunýtingar sem hv. þingmaður hlýtur nú að hafa tekið eftir. Það eru áform um það norðan lands jafnvel að virkja og byggja stóriðju vegna áhuga heimamanna, vegna áhuga Norðlendinga, sérstaklega vinstri manna á Húsavík. Þegar við þingmenn vorum þar nýlega á fundi stóð þar í texta frá bæjaryfirvöldum — vinstri menn stjórna bænum — að þeir vonuðust til þess að stjórnvöld kæmu ekki í veg fyrir að reist yrði stóriðja við Húsavík. Mér fannst þetta einkennilegur texti og spurði hvað þetta þýddi því við höfum frekar verið skömmuð fyrir að vera of áhugasöm um að byggja stóriðju heldur en hitt. Þá var svarið að það væri bara vegna ótta við að kannski kæmu aðrir flokkar að völdum á Íslandi. Þetta voru nú flokksbræður hv. þingmanns, ef ég þekki rétt til, sem höfðu þó ekki meira álit á honum en svo hvað varðar atvinnuuppbyggingu á þessu svæði að þeir þurftu að hafa sérstakan fyrirvara um að hætta væri á því að aðrir gætu komið að völdum. Og ég er sammála þeim um það.