132. löggjafarþing — 27. fundur,  22. nóv. 2005.

Rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu.

288. mál
[17:02]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra fyrir að sanna hér mín orð, sanna þau orð að Framsóknarflokkurinn er alveg örugglega — það er hafið yfir vafa í raun og veru í ljósi t.d. þessara orðaskipta hér í dag — ómálefnalegasti stjórnmálaflokkur á Íslandi. (Gripið fram í.) Talsmenn hans temja sér framgöngu sem er eiginlega harla óvenjuleg í þingsölum. Það er ekki haft svo mikið sem fyrir því að reyna að eiga orðaskipti við menn og láta þá bara viðurkenna að þeir hafi aðrar skoðanir og séu á öndverðum meiði. Nei, nei, það þarf bara að reka málin á þessum nótum eins og við heyrðum hér m.a. áðan.

Já, þjóðin er heppin að vinstri grænir skuli ekki hafa meiri völd. Hver segir það? Það segir Valgerður Sverrisdóttir. Að hennar mati er það alveg rétt. En það vill svo vel til, frú forseti, að þjóðin ræður því sjálf. Það er nefnilega sem betur fer ekki Framsóknarflokkurinn sem ræður því. Hann er á stanslausri niðurleið og hefur tapað fylgi núna þrennar kosningar í röð, ef hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra vill fara yfir það út af fyrir sig. Eigum við kannski að rifja upp kosningarnar 1999? Eigum við rifja upp úrslitin í síðustu kosningum í Norðurlandskjördæmi eystra? Þá var hæstv. ráðherra með hýrri há — var það ekki? — og glöð í bragði og í sinni þegar hún tapaði forustunni í því kjördæmi í hendur Sjálfstæðisflokksins og miklu fylgi. Það er nú hægt að rifja upp ýmislegt í þessum efnum.

Við unum alveg ágætlega sátt við okkar hlut í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði og finnum fyrir miklum stuðningi úti í þjóðfélaginu sem birtist með ýmsum hætti, m.a. í því að ungt fólk er mjög upptekið af þessum málum. Það hugsar um framtíðina og veltir því fyrir sér hvernig Ísland komi til með að líta út, hvernig við viljum hafa landið okkar, hvernig við viljum umgangast það og hvernig við viljum fara með það. Það vill heldur ekki að Ísland sé dregið inn í stríð í fjarlægum heimsálfum og beri ábyrgð á þeim hörmungum o.s.frv.

Ég tek ekki hreppapólitíska afstöðu í þessum efnum. Hæstv. ráðherra er hér að biðja um að menn taki afstöðu til grundvallarmála af þessu tagi eftir því hvort virkjanirnar kunna að falla í þeirra kjördæmi, þeirra hrepp eða einhvers staðar annars staðar. Þá skal hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra vera þannig (Forseti hringir.) stjórnmálamaður en ekki Steingrímur J. Sigfússon. (Forseti hringir.) Þetta er ekki hreppapólitík fyrir mér þegar kemur að náttúru landsins.