132. löggjafarþing — 27. fundur,  22. nóv. 2005.

Rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu.

288. mál
[17:13]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Þetta er búin að vera fróðleg umræða hér í dag. Ýmislegt hefur komið fram í henni, rök með og á móti o.s.frv. Það sem mig langar að vita — og beini ég þá orðum mínum til hæstv. iðnaðarráðherra — er nokkuð sem mér finnst ekki hafa komið fram í umræðunni, þ.e. hvort leiða megi líkur að því varðandi þetta frumvarp að þeir sem rannsóknarleyfi fá geti haldið þeim til jafnvel margra ára og þannig hugsanlega skapað sér sérstaka stöðu til þess að halda hjá sér nýtingarrétti síðar á einhverjum virkjunarkostum eða hvort gert sé ráð fyrir því að um slík leyfi gildi ákveðnar tímatakmarkanir og hvernig þær eru þá settar og á hvaða grundvelli. Ég held að nauðsynlegt sé að velta þessu fyrir sér þegar menn skoða efnisinntak þessara laga, þ.e. hvort ekki geti komið upp sú staða að einhverjir aðilar hafi sótt um rannsóknarleyfi og fengið það, stundi síðan — hvað eigum við að segja? — hægfara rannsóknir í tíu ár eða fimmtán og fái þar af leiðandi forgang að því að nýta viðkomandi vatnsfall, ef menn verða sammála um að það sé hagkvæmt til nýtingar. Reyndin gæti orðið sú, hæstv. forseti, að fyrirtæki sem núna eru greinilega í kapphlaupi um að raða á sig virkjunarkostum fari þá leið að sækja um rannsóknarleyfi, að menn sæki um rannsóknarleyfi í talsverðum mæli, á hverjum læk og hverri sprænu, og haldi síðan rannsóknum áfram. Menn geta byrjað á að mæla vatnsrennsli o.s.frv. og síðan farið að skoða hina ýmsu virkjunarkosti og möguleika, fallhæð og margt fleira. Ég held að menn verði að skoða þetta í nefnd mjög vandlega, hæstv. ráðherra. Ég hef ekki heyrt það hér í umræðunni og sé það ekki í frumvarpstextanum að þessi möguleiki sé inni í myndinni og hann hefur ekki verið ræddur hér í dag. Ég held að nauðsynlegt sé að menn velti þessu fyrir sér þegar verið er að setja þessi ákvæði.

Hér er að vísu tekið fram að annar aðili geti fengið virkjunarleyfi og þurfi þá jafnvel að greiða eitthvað af kostnaði til baka. En það segir hins vegar ekkert um hversu lengi rannsóknaraðilinn hefur stundað einhvers konar rannsóknir. Hver leggur svo mat á hvort þessar rannsóknir verði til þess að koma þessum málum virkilega fram, þ.e. ef menn hafa áhuga á því, eða hvort menn séu hreinlega koma sér í ferli bara til að tryggja þeim forgang að virkjunarkostum síðar? Þeir væru þá í raun að raða upp á sig rannsóknarleyfum. En síðan gætu rannsóknir tekið mjög langan tíma. Það er ekkert í samræmi við þá hugsun sem menn væntanlega hafa í orkumálum, þ.e. að tryggja sér þá virkjunarkosti sem hagkvæmastir teljast og minnstum spjöllum valda.