132. löggjafarþing — 27. fundur,  22. nóv. 2005.

Réttarstaða samkynhneigðra.

340. mál
[17:33]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hér erum við að ræða mjög gott málefni held ég, jákvæða þróun í þjóðfélagi okkar. Ég vil hins vegar spyrja hæstv. forsætisráðherra beint að því hvort hann telji ekki ástæðu til þess — hann kom reyndar örlítið að í því að skoða málið í nefnd — að við gengjum alla leið í því að jafna stöðu samkynhneigðra með því að fara með breytingu inn í hjúskaparlögin sem kæmi þá á eftir 1. gr., eða inn í hana, um að hjúskaparstöðu karls eða konu sem ekki eru í vígðri sambúð megi staðfesta með vígslu.

Ég tel að við eigum að klára þetta mál úr því að við erum að taka þetta með þessum hætti sem hér er gert og að mínu viti er þetta mjög þarft mál og vel að því staðið. Mér finnst ekki að við eigum að skilja þetta mál eftir í þeirri stöðu að ekki sé komin endanleg lausn á því að fólk geti fengið vígslu ef það svo kýs.