132. löggjafarþing — 27. fundur,  22. nóv. 2005.

Réttarstaða samkynhneigðra.

340. mál
[17:51]
Hlusta

Ásta Möller (S):

Virðulegi forseti. Ég vil í nokkrum orðum taka þátt í umræðunni um frumvarpið sem hér er til umræðu og varðar réttarstöðu samkynhneigðra. Ég tel að frumvarpið sé mjög merkilegt og heyri á umræðunni að á þinginu er góð samstaða um það. Það ætti því að nást í gegn og ná góðri umræðu.

Á síðustu árum hefur orðið mikilvæg breyting á stöðu samkynhneigðra í samfélaginu, bæði lagaleg og félagsleg. Eins og kemur fram í greinargerð með frumvarpinu hefur löggjafinn staðið fyrir miklum réttarbótum er varða lagalega stöðu samkynhneigðra á síðustu árum í tíð ríkisstjórna undir forustu Sjálfstæðisflokksins og nú Framsóknarflokksins. Þessar breytingar má rekja aftur til samþykktar þingsályktunartillögu á árinu 1992. Þingheimur ályktaði þá í fyrsta skipti um málefni samkynhneigðra og lýsti yfir vilja sínum til að tryggja að misrétti gagnvart samkynhneigðum ætti sér ekki stað hér á landi. Þingmenn allra flokka stóðu að tillögunni. Það er í raun merkilegt til þess að hugsa að ekki eru nema 13 ár síðan þetta var, síðan þessi tillaga kom fram, fyrsta tillaga þessa efnis.

Með samþykkt þeirrar tillögu var markmiðið sett og ýmsar réttarbætur hafa séð dagsins ljós frá allt þeim tíma. Í kjölfar breytinga á lögum sem kveða á um jafna stöðu samkynhneigðra og gagnkynhneigðra og almennrar umræðu í samfélaginu á síðustu árum hefur félagsleg staða þessa hóps tekið fullkomnum umskiptum, bæði í viðhorfum manna, samskiptum og orðræðu manna í milli.

Hæstv. forsætisráðherra hefur gert grein fyrir þeim lagabreytingum sem felast í frumvarpinu sem hér er til umræðu. Mikilvægustu þættirnir varða afnám skilyrða til fastrar búsetu þegar Íslendingar eiga í hlut, um jafna stöðu samkynhneigðra og gagnkynhneigðra varðandi skráningu sambúðar í þjóðskrá sem þýðir að óvígð sambúð samkynhneigðra hefur sömu réttarstöðu og óvígð sambúð gagnkynhneigðra gagnvart lögum, svo sem um almannatryggingar, lífeyrisréttindi, skattalega meðferð tekna og eigna, skipti dánarbúa og fleira. Þessir þættir eru afar mikilvægir og rétta endanlega lagalega stöðu samkynhneigðra í sambúð gagnvart gagnkynhneigðum.

Þá er í frumvarpinu tekið á rétti samkynhneigðra kvenna til tæknifrjóvgunar og rétti samkynhneigðra til frumættleiðingar auk þess sem skilgreind eru réttindi og skyldur þeirra í því sambandi. Þetta hafa verið stór baráttumál samkynhneigðra.

Ég tek undir með hæstv. forsætisráðherra um að rannsóknir hafi ítrekað staðfest að börnum sem alin eru upp hjá samkynhneigðum sé ekki búið síðra uppeldisumhverfi en öðrum börnum þótt þau lendi sjálfsagt í þeim aðstæðum að verja fjölskylduform sitt og geti orðið fyrir aðkasti af þeim ástæðum. Samkynhneigðir eru meðvitaðir um þetta og leitast yfirleitt við að styrkja börn sín í að taka á móti slíku.

Réttur samkynhneigðra til frumættleiðingar er samkvæmt frumvarpinu viðurkenndur, hvort heldur um er að ræða ættleiðingu innan lands eða erlendis. Í umræðu á síðustu árum, m.a. þeirri sem fór fram í kringum árið 2000, um stjúpættleiðingu, komu fram ákveðnar efasemdir um að rétt væri að fara þá leið að heimila samkynhneigðum að ættleiða erlent barn og það talið jafnvel geta stofnað í hættu samskiptum þeirra sem ættleiða börn erlendis frá við stjórnvöld viðkomandi ríkja sem samþykktu ekki slíkt form.

Í frumvarpinu er tekið mið af reynslu Svía en sambærilegar breytingar voru gerðar á sænskum lögum á árinu 2002, án þess þó að slíkir erfiðleikar hafi komið fram eins og greint er frá í greinargerðinni. Þó er ljóst að meðan erlend ríki, t.d. Asíuríki sem börn eru helst ættleidd frá hingað til lands, heimila ekki ættleiðingu barna til samkynhneigðra munu samkynhneigðir ekki geta nýtt sér réttinn sem þeir fá til ættleiðingar erlendra barna verði frumvarpið að lögum.

Ákvörðun um að gera þá breytingu á réttarstöðu lesbískra kvenna að þær fái rétt til tæknifrjóvgunar með sömu skilyrðum og hjón af báðum kynjum er skýrð vel í greinargerð frumvarpsins. Ég tek undir þau sjónarmið. Þó er sú undantekning gerð á að ekki eru gerðar kröfur um að lesbísk kona fái fyrst að fara í tæknifrjóvgun að aðrar aðgerðir til að sigrast á ófrjósemi hafi brugðist eða séu ekki tiltækar. Varla er þörf á að skýra það atriði.

Þær breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu eru í rökrænu framhaldi af bættri réttarstöðu samkynhneigðra sem samstaða hefur verið um á hinu háa Alþingi á síðustu árum. Hæst ber samþykkt laga um staðfesta samvist frá árinu 1996 og þær breytingar sem gerðar voru á lögunum á árinu 2000, sérstaklega er varðar stjúpættleiðingar.

Virðulegi forseti. Íslendingar hafa verið í fararbroddi við að tryggja réttarstöðu samkynhneigðra. Þannig voru þeir framarlega, ef ekki fremstir í flokki þjóða, til að samþykkja lög um staðfesta sambúð samkynhneigðra sem færði réttarstöðu slíks sambúðarforms til jafns við réttarstöðu gagnkynhneigðra í hjónabandi. með undantekningum varðandi ættleiðingu og tæknifrjóvgun. Þetta var á árinu 1996.

Á árinu 2000 samþykkti Alþingi lagabreytingu sem heimilaði stjúpættleiðingu samkynhneigðra með öllum atkvæðum gegn einu. Þá var Ísland aftur í fararbroddi meðal þjóða. Með samþykkt þess frumvarps sem nú er til umræðu skipum við okkur enn meðal fremstu þjóða og með frumvarpinu er skrefið tekið til fulls af hálfu löggjafans.

Í tengslum við umræðuna hefur verið dregið fram að kirkjan hefur ekki komist að niðurstöðu um hvort hún sé tilbúin að viðurkenna og leggja blessun sína yfir sambúðarform samkynhneigðra á sama hátt og hefðbundið hjónaband gagnkynhneigðra í kirkjulegri athöfn. Ég legg áherslu á að slíka orðræðu þarf að leiða til lykta innan kirkjunnar sjálfrar. Löggjafinn getur með engu móti sagt kirkjunni fyrir verkum í þeim efnum, né heldur getur stjórnmálaflokkur tekið afstöðu til þess. Það varðar ekki stjórnmálaafstöðu þótt vissulega geti einstaklingar haft skoðun á því. Mun fremur er um að ræða siðferðilega afstöðu og túlkun á heilagri ritningu. Kirkjan verður að komast að niðurstöðu með sínum hætti.

Ég las fyrir nokkru hirðisbréf biskups til íslensku kirkjunnar sem hann gaf út. Það ber heitið „Í birtu náðarinnar“ og var gefið út stuttu eftir að núverandi biskup tók við embætti. Hann segir eftirfarandi um samkynhneigð, með leyfi forseta:

„Ég legg ríka áherslu að kirkjan hefur ekki útilokað samkynhneigða úr samfélagi sínu! Ég legg ríka áherslu á að samkynhneigðir eru velkomnir í samfélag þjóðkirkjunnar eins og annað fólk, og þar er ekki farið í manngreinarálit. Engum er synjað um blessun og fyrirbæn við altari þjóðkirkjunnar, sá sem þess æskir er ekki spurður um kynhneigð fremur en aðra eiginleika.“

Þá segir biskup Íslands einnig, með leyfi forseta:

„Staðfest sambúð er skráð sambúð, en ekki hjónaband. Engin þeirra kirkna sem við eru skuldbundin samstarfi við, engin þjóðkirkna Norðurlandanna hefur treyst sér til að stíga það skref að vígja samkynhneigða sem hjón. Hvers vegna hefur það vafist fyrir kirkjunum? Ástæðurnar eru margvíslegar. Hjónavígsla er annað og meira en staðfesting á ást og sambúð einstaklinga. Það á sér forsendu í gagnkynkvæmni kynjanna. Rökin fyrir atbeina kirkjunnar að hjónavígslu eru orð Biblíunnar að Guð skapaði manninn í sinni mynd, hann skapaði þau karl og konu og Guð blessaði þau. Hjónavígsla kirkjunnar í opinberu ritúali, táknmál hennar og atferli byggir á þessu, á gagnkvæmni kynjanna. En þeim sem leita fyrirbænar kirkjunnar og blessunar Guðs yfir samlíf sitt og heimili er ekki vísað á bug, hvert svo sem sambúðarform heimilisfólksins er.“

Biskup Íslands skýrir afstöðu kirkjunnar til samkynhneigðra á afar skýran máta og á hvaða forsendu kirkjan byggir er hún vígir fólk til heilags hjónabands. Það er því ljóst að sambúðarform samkynhneigðra sem slíkt, nýtur blessunar hjá kirkjunni, enda byggist boðskapur Biblíunnar á skilningi og umburðarlyndi.

Frá því að þessi orð voru rituð fyrir nokkrum árum hefur mikil umræða farið fram innan kirkjunnar. Hún hefur þróast. Ég tek undir með hv. þm. Guðrúnu Ögmundsdóttur varðandi það að mikilvægt er að í þessu máli nái kirkjan niðurstöðu sem samræmist kenningum hennar en slík afstaða verður ekki þvinguð fram.