132. löggjafarþing — 27. fundur,  22. nóv. 2005.

Réttarstaða samkynhneigðra.

340. mál
[18:39]
Hlusta

forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F):

Frú forseti. Ég vildi aðeins nota tækifærið og þakka þá umræðu sem hér hefur farið fram og þá miklu samstöðu sem ríkir. Ég tel það mjög mikilvægt í þessu máli að viðhalda þeirri samstöðu og sé í sjálfu sér enga ástæðu til annars en reikna með að svo verði.

Ég vildi aðeins geta þess að það frumvarp sem hér liggur fyrir er unnið með því hugarfari að um það geti verið rík samstaða á Alþingi og ég tel það mikilvægt og málinu til framdráttar að í því sé sem mest eindrægni.

Út af því sem hefur verið sagt um okkar ágætu þjóðkirkju og okkar söfnuði þá vil ég vitna til þess sem nefndin sagði um það mál og á því er byggt, en það er hvatning til þjóðkirkjunnar um að vinna að því að ná niðurstöðu í þetta mál og ná um það samstöðu. Svo segir að slík afstöðubreyting sé að mati nefndarinnar forsenda þess að unnt verði að fella niður það skilyrði laganna um staðfesta samvist að hún geti aðeins stofnast með borgaralegri vígslu.

Nú þurfum við líka að hafa það í huga að þessum málum er öðruvísi fyrir komið hér á landi en í flestum öðrum löndum. Hér á landi geta menn valið milli svokallaðrar borgaralegrar vígslu og kirkjulegrar vígslu. Flestir og flest okkar hafa valið þann kost að gifta okkur í kirkju. Víðast annars staðar er þetta með þeim hætti að það þurfa allir að ganga í sitt hjónaband eins og við mundum kalla með borgaralegri vígslu, þ.e. fá hana staðfesta hjá sýslumanni eða öðrum bærum aðila, og ganga síðan til kirkju. Þannig er það í flestum Evrópuríkjum. Ég er ekki að mæla með því að við breytum þessu. Þetta er rík hefð hér á landi og ég segi fyrir mig sjálfan að ég hef ekki áhuga fyrir því að á því verði gerð einhver grundvallarbreyting. En þetta er sú venja sem er víðast hvar í okkar nágrannalöndum.

Ég legg fyrst og fremst áherslu á það að við virðum kirkjuna í þessu máli, gefum henni svigrúm og tíma til að ljúka sínu starfi. Það er mikið og gott starf í gangi innan kirkjunnar er varðar þetta mál og það er mjög mikilvægt að við virðum sjálfstæði kirkjunnar í þessu sambandi og tökum tillit til hennar. Ég geri ráð fyrir því að aðilar verði kallaðir fyrir nefndina og eins og ég sagði í framsögu minni þá skýrist málið, en ég tel afar mikilvægt að menn haldi þeirri samstöðu sem er í málinu því að hér er verið að stíga mjög stórt skref sem allir eru sammála um og mikilvægt skref sem sennilega enginn annar hefur stigið. Ég tel að þetta sé sjálfsagt skref, við séum fyrst og fremst að uppfylla jafnréttisákvæði stjórnarskrárinnar. Við eigum að sjálfsögðu að vinna í anda jafnréttisákvæðis okkar stjórnarskrár og með þessu frumvarpi er að mínu mati aðeins verið að stíga það skref sem er nauðsynlegt til að við getum sagt að við uppfyllum jafnréttisákvæði stjórnarskrárinnar að þessu leyti.