132. löggjafarþing — 28. fundur,  23. nóv. 2005.

Skattamál í tengslum við Kárahnjúkavirkjun.

318. mál
[12:08]
Hlusta

Dagný Jónsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Því er ekki að neita að þetta ferli allt hefur haft leiðindabrag á sér. Það hefur verið erfitt hjá sveitarfélögunum fyrir austan sem hafa lent í áætluninni sem hv. þm. Þuríður Backman kom inn á áðan. Sérstaklega vil ég í því ljósi nefna Fljótsdalshérað en þar hefur verið áætlað á þá verkamenn sem komu hingað í skammtímaskráningu og hafa jafnvel aldrei látið sjá sig á svæðinu. Þetta hefur síðan verið dregið frá framlagi Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga og því er staða sveitarfélaganna mun verri fyrir vikið. Sveitarfélögin hafa leitað eftir því að fá fund með stjórnvöldum, ræða málin og fara yfir þau. Ég vona svo sannarlega að eitthvað fari að gerast í þeim málum. Sveitarfélögin verða af verulegum tekjum. Þau eru ekki að biðja um að þessar skatttekjur skili sér beint, heldur að jöfnunarsjóðurinn taki tillit til þess að þessir verkamenn hafa ekki starfað á svæðinu. Mér finnst eðlilegt að jöfnunarsjóðurinn taki þetta til skoðunar.