132. löggjafarþing — 28. fundur,  23. nóv. 2005.

Að bera af sér sakir.

[12:14]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég mótmæli því harðlega að forseti taki sér vald til að meta það þegar þingmaður biður um orðið til að bera af sér sakir, að það sé engin ástæða til að gefa honum orðið eins og þingsköp mæla skýrt fyrir um. (Iðnrh.: … sagt.) Þar á ofan fer ég fram á það við forseta að forseti þaggi niður í hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra. Hæstv. ráðherra getur komið í ræðustól þegar efni standa til eins og aðrir þingmenn. Það er ekki heldur hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra að meta það og hjálpa forseta við fundarstjórnina um að hafa af mér orðið (Gripið fram í.) sem mér ber samkvæmt landslögum. Eins og þeir vita sem þekkja til hafa þingsköpin lagagildi og ég tek því ekki þegjandi að réttur sé af mér hafður sem ég hef samkvæmt þingsköpum sem ég kann mætavel og hef þó nokkra reynslu í að starfa samkvæmt.

Ég spyr virðulegan forseta: Fæ ég orðið til að bera af mér sakir eða ekki? Þarf ég kannski að gera það undir þessum dagskrárlið sem auðvitað er miklu lakara?

(Forseti (SP): Hv. þingmaður. Forseti telur eðlilegra að hann noti þennan dagskrárlið, um fundarstjórn forseta, til að ræða það mál heldur en að bera af sér sakir miðað við hvernig dagskrá fundarins er háttað í dag.)

Frú forseti. Ég er þessu algerlega ósammála. Það er auðvitað eðlilegra að ég beri af mér sakirnar undir liðnum að bera af sér sakir en undir liðnum um fundarstjórn forseta en það skal þá vera þannig.

Ég mótmæli því að hæstv. fjármálaráðherra sem hér er kominn til að svara fyrirspurn skuli nota stóran hluta af seinni ræðutíma sínum, ekki til að fara betur yfir og svara betur fyrirspurninni á málefnalegan hátt heldur til að dylgja um að annarlegur tilgangur sé að baki því hjá mér að óska upplýsinga um skattalega framkvæmd í landinu. Hvað gefur hæstv. fjármálaráðherra tilefni til þess að gera því skóna að þessar spurningar, sem eru fullkomlega efnislegar og málefnalegar og snerta vandamál sem sannanlega er uppi, séu annarlegar? Ekki þarf annað en að fylgjast með fréttum til að vita hvernig þetta hefur t.d. komið út fyrir sveitarfélögin sem í hlut eiga. Er það þá til þess að gera eitthvað lítið úr fyrirspurninni? Er það til þess að afsaka það að ráðuneytið svari á annan hátt að fyrirspyrjandinn kunni að hafa einhverjar meiningar ótengdar því máli í sjálfu sér sem spurt er um, þ.e. skattskilum vegna launagreiðslna á umræddu svæði? Þarf það að blandast inn í það hvort menn voru með eða á móti því að Kárahnjúkavirkjun yrði reist sem slík á sínum tíma, einhverjum árum áður, deilur um það, t.d. hvort umhverfisáhrifin af virkjuninni væru réttlætanleg eða ekki? Ekki hef ég dylgjað um það, svo gagndæmi sé tekið, að stjórnvöld séu eitthvað lin í skattheimtunni af því að þau styðji verkefnið. Ég hef aldrei látið að því liggja. Ég hef spurt hvernig þetta gengi. Ég hef mótmælt því að ég fái aftur og aftur röng svör, að þetta sé allt í lagi þó að allt saman sé í vaskinum.