132. löggjafarþing — 28. fundur,  23. nóv. 2005.

Staða framkvæmda við Kárahnjúkavirkjun.

120. mál
[12:22]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Sem svar við spurningu 1:

Allir verkþættir við byggingu Kárahnjúkavirkjunar eru núna nokkurn veginn á áætlun, nema gerð aðrennslisganga sem nú er um fjórum mánuðum á eftir áætlun. Eins og venja er við slíkar aðstæður er í sífellu verið að endurskoða verkáætlanir til loka verksins með það að markmiði að ná upp töfum þeim orðnar eru. Um 18 mánuðir eru til gangsetningar á virkjuninni og er að sjálfsögðu reynt að vinna upp orðnar tafir á þeim tíma, m.a. með því að vinna frágangsvinnu samhliða gangaborun. Enn er ekki ljóst hvort unnt verður að vinna þessar tafir upp að fullu en það fer fyrst og fremst eftir jarðfræðiaðstæðum á þeim gangahlutum sem eftir er að bora. Á fyrri hluta næsta árs verður betur unnt að meta það.

Svar 2: Við alla jarðgangagerð, eins og nú er unnið að á Fljótsdalsheiði, er gert ráð fyrir að fara þurfi í gegnum sprungur og misgengi. Þau hafa ekki reynst vera fleiri en búast mátti við í upphafi og þegar hefur verið borað í gegnum fjölda slíkra. Misgengisbelti við borvél 2, sem er í raun þrjú misgengi, nánast hlið við hlið, hefur hins vegar reynst mjög erfitt, bæði vegna þess hve fyllingin í misgenginu er laus í sér og einnig, og ekki síður, vegna vatnsinnrennslis en hvort tveggja hefur valdið erfiðleikum við bergstyrkingar. Vonir standa til að borvél 2 nái að komast í gegnum misgengið innan tíðar. Göngin í gegnum misgengisbeltið verða heilfóðruð á tiltölulega stuttum kafla, en með slíku var reiknað í útboði. Vatnsinnrennsli á vestasta hluta gangaleiðarinnar hefur einnig orðið langvinnara og meira en gert var ráð fyrir og er við því brugðist með þéttiaðgerðum, þ.e. dælingu á sementi og öðrum þéttiefnum inn í bergið umhverfis göngin. Ekki er talin ástæða til endurskoðunar á mati á áhættu við rekstur virkjunarinnar vegna þessara atriða. Hvað varðar sprungur og misgengi á stíflusvæðum er ljóst að misgengi eru fleiri og stærri en rannsóknin hefur bent til, bæði í grunni Kárahnjúkastíflu og Dysjarárstíflu.

Við þessu hefur verið brugðist eins og venja er við stíflubyggingu, þ.e. hönnun mannvirkjanna er löguð að breyttum aðstæðum á framkvæmdatíma og auk þess hafa verið gerðar umfangsmiklar rannsóknir á misgengjum í nágrenni stíflusvæðanna. Þessum rannsóknum er nú að mestu lokið og er skýrsla um þær væntanleg innan tíðar frá íslenskum orkurannsóknum. Í framhaldi af skýrslu þeirri sem ýmsir af helstu fræðimönnum landsins á sviði jarðskjálfta og jarðskorpuhreyfinga unnu fyrir Landsvirkjun fyrr á þessu ári fól Landsvirkjun Rannsóknamiðstöð í jarðskjálftaverkfræði við Háskóla Íslands að yfirfara og endurmeta jarðskjálftaforsendur fyrir hönnun á stíflu við Hálslón. Þessu verki er nú að ljúka og er skýrsla væntanleg á næstunni. Helstu niðurstöður eru þegar kunnar og hafa verið notaðar til að endursveiflugreina stíflurnar.

Þó að fyrrnefndar rannsóknarskýrslur séu ekki enn komnar út er nú þegar ljóst að tiltölulega litlar breytingar þarf að gera á hönnun stíflnanna til að viðhalda því öryggi sem að var stefnt, og hafa slíkar breytingar nú þegar verið innleiddar og útfærðar við yfirstandandi framkvæmdir. Áhætta af rekstri stíflnanna er því talin óbreytt frá því sem upphaflega var miðað við og eðlileg er talin á alþjóðavísu við byggingu slíkra mannvirkja. Þrátt fyrir þetta hefur Landsvirkjun ákveðið að ítarlegt áhættumat sem gert var og kynnt í tengslum við mat á umhverfisáhrifum virkjunarinnar verði endurskoðað. Sú vinna er þegar hafin og gert er ráð fyrir að hægt verði að ljúka henni snemma á næsta ári.

Svar 3: Í kostnaðaráætlun fyrir Kárahnjúkavirkjun var, eins og venja er við áætlun slíkra mannvirkja, gert ráð fyrir verulegum fjárhæðum til að mæta óvæntum kostnaði. Enn er ekkert sem bendir til þess að kostnaður við framkvæmdirnar fari fram úr áætlun þeirri sem lögð var til grundvallar við ákvörðun um verkið. Því er á þessu stigi ástæðulaust og ótímabært að fjalla um umframkostnað og afleiðingar hans á fjárhag Landsvirkjunar.

Kárahnjúkavirkjun er byggð til orkuframleiðslu fyrir álver Fjarðaáls á Reyðarfirði en orkugeta virkjunar svarar til orkuþarfa álversins. Ef í spurningunni felst hvort Landsvirkjun eigi möguleika á að ná hugsanlegum umframkostnaði inn í gegnum hækkun á verði til almenningsveitna er slíkt ekki mögulegt í núverandi markaðsumhverfi. Kárahnjúkavirkjun er því sjálfstæð og óháð hinum almenna raforkumarkaði.