132. löggjafarþing — 28. fundur,  23. nóv. 2005.

Svörun í þjónustusíma.

247. mál
[12:35]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Ég beini fyrirspurn minni til hæstv. viðskiptaráðherra sem fer jafnframt með neytendamál sem hljóðar svo:

Hafa verið settar eða kemur til álita að setja þjónustukvaðir á fyrirtæki eða þjónustuaðila með almannaskyldur eða ráðandi markaðshlutdeild þar sem kveðið yrði á um hámarksbiðtíma eftir svörun í þjónustusíma?

Hvatinn að fyrirspurninni var persónulegs eðlis. Ég þurfti nauðsynlega að ná í þjónustusíma Símans, 800 7000, og eftir að hafa beðið á línunni í einar 15 mínútur kom svar um að ég væri númer 30 á biðlista. Þetta var skömmu fyrir hádegi og þar sem ég hélt að illa stæði á þá reyndi ég aftur eftir hádegi. En þá endurtók sig sama sagan. Eftir allnokkra bið sagði mér símsvari: Þú ert nr. 30. Símtölum verður svarað í réttri röð, eitthvað svoleiðis. Ég sá fyrir mér að dagurinn færi ekki í annað en að bíða eftir því að mér yrði svarað í þjónustusímanum.

Eftir að ég sendi þessa fyrirspurn inn hef ég fengið fjöldann allan af símtölum og viðbrögðum frá fólki sem hefur lent í því nákvæmlega sama. Þá fór ég að velta því fyrir mér að þetta er eins og ákveðin vara eða þjónusta sem maður er áskrifandi að og mikilvægt er að eiga aðgang að henni, ekki síst þegar um ráðandi markaðshlutdeild er að ræða og maður hefur ekki í önnur hús að venda með þá þjónustu. Mér datt í hug að spyrja hæstv. ráðherra neytendamála hvort að þetta séu eðlilegir viðskiptahættir, samkvæmt lögum um óréttmæta viðskiptahætti, gagnsæi markaðarins og samkvæmt lögum um neytendakaup sem lúta að því að þjónusta skuli uppfylla ákveðnar kröfur. Málið hefur einnig alvarlegri hlið. Það snertir líka öryggismál. Fleiri fyrirtæki sem eru með ráðandi markaðshlutdeild eru með símsvörun sem ekki er hægt að komast að nema í gegnum einhvern slíkan þjónustusíma.

Ég get nefnt það í lokin að það tókst með klækjum að komast inn á aðalskrifstofu Símans og koma þar áleiðis skilaboðum um að hringja í mig. Þetta var á fimmtudegi og á mánudegi var hringt og spurt: Varst þú að reyna að ná sambandi við þjónustuverið? Ég leyfi mér því að spyrja hæstv. ráðherra neytendamála hvort að þetta sé eðlilegt.