132. löggjafarþing — 28. fundur,  23. nóv. 2005.

Svörun í þjónustusíma.

247. mál
[12:44]
Hlusta

viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Sá rammi sem hv. þingmaður er að tala um eru samkeppnislög í landinu og jafnvel fleiri lög sem hann nefndi í ræðu sinni. Það er ekki mitt að kveða upp úr um hvort eitthvert fyrirtæki úti í bæ hafi brotið lög. Það verður að fara sína leið innan kerfisins.

Samkeppnislögin voru til meðferðar á síðasta þingi. Við skerptum á ýmsum ákvæðum í þeim lögum og þar að auki var sett á stofn ný stofnun, Samkeppniseftirlit, sem tekur við af Samkeppnisstofnun. Hún fær verulega aukna fjármuni til ráðstöfunar til að halda utan um sín mál og ég er sannfærð um að það verði gert á viðunandi hátt.

En það sem hv. þingmaður var fyrst og fremst að leita eftir var málefni sem ég get ekki haft afskipti af. Ég tel hins vegar að hann hafi komið rækilega á framfæri kvörtun með því að segja þessa reynslusögu úr ræðustól á Alþingi. Það hlýtur að hafa sín áhrif á fyrirtækið sem þarna á í hlut.