132. löggjafarþing — 28. fundur,  23. nóv. 2005.

Móttaka ferðamanna við Kárahnjúka.

101. mál
[13:02]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég held að ástæða sé til að það komi fram, af því að menn nefndu hér talsvert þjóðgarð í samhengi við þessa framkvæmd, að það liggur alveg fyrir, og um það get ég borið sem nefndarmaður í nefnd ráðherrans um þjóðgarð eða verndarsvæði norðan Vatnajökuls, að virkjunarsvæðið og næsta nágrenni Hálslóns mun aldrei fást viðurkennt sem þjóðgarður. Þvert á móti verður stór fleygur í þann fyrirhugaða þjóðgarð eða það verndarsvæði norðan Vatnajökuls sem nú er blessunarlega rætt um að setja á fót. Sennilega verður a.m.k. að hafa 5 km belti beggja vegna og allt umhverfis lónið til þess að svæðið þaðan í frá fáist samkvæmt alþjóðlegum stöðlum flokkað og viðurkennt sem þjóðgarður eða verndarsvæði, einfaldlega vegna þess að mannvirki af þessari tegund eru ósamrýmanleg reglum um vernd ósnortins umhverfis sem byggt er á.