132. löggjafarþing — 28. fundur,  23. nóv. 2005.

Móttaka ferðamanna við Kárahnjúka.

101. mál
[13:04]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég heyri að hv. síðasti ræðumaður hefur mikið álit á iðnaðaráðuneytinu og kemur það náttúrlega ekki á óvart. (Gripið fram í.) En okkur eru ákveðin takmörk sett í sambandi við þau málefni sem við höfum afskipti af. Ég vil hins vegar þakka hv. þm. Guðmundi Hallvarðssyni fyrir að koma fram með þessa fyrirspurn þannig að tækifæri gefist til að fara yfir þessi mikilvægu mál.

Ég hef alltaf verið þeirrar skoðunar að virkjunin gefi okkur alveg gríðarlega möguleika í ferðaþjónustu. Það hefur sýnt sig nú þegar og á eftir að sýna sig enn frekar þegar við höfum náð því markmiði að þarna verði um hringakstur að ræða. Vissulega á eftir að loka hringnum þannig að sómi verði að en það er náttúrlega framtíðarmúsíkin að þarna verði skemmtilegur hringakstur. Eins og kom fram í máli mínu áðan er verið að íhuga eða er nánast ákveðið að aðstaða verði við Hálslón þar sem hægt verður að kynna bæði framkvæmdirnar og náttúrufar á svæðinu.

Möguleikarnir eru því miklir og þá ber svo sannarlega að nýta til að styrkja svæðið enn frekar en þegar er orðið. Við höfum verið sammála um það, stjórnarflokkarnir, og þó nokkrir þingmenn Samfylkingarinnar hafa verið sammála okkur í því.