132. löggjafarþing — 28. fundur,  23. nóv. 2005.

Gleraugnakostnaður barna.

95. mál
[13:14]
Hlusta

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf):

Herra forseti. Ég fagna þessari yfirlýsingu hæstv. ráðherra um að hækka eigi endurgreiðslur og hækka aldur þeirra barna sem fá endurgreiddan kostnað vegna gleraugna. Hér er kominn fram árangur af ötulli baráttu hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur sem hefur ítrekað tekið þetta mál til umræðu á þinginu og barist fyrir því að eitthvað breyttist með þátttöku hins opinbera í kostnaði við gleraugnanotkun barna. Hún hefur svo sannarlega haldið hæstv. ráðherra við efnið og hér er sem sagt árangurinn að auka á þátttöku sjúkratrygginga í þeim kostnaði. Ég tók eftir því í fjárlagafrumvarpinu að þar voru viðbótarfjárveitingar til þessa liðar. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þetta og fagna því að þarna skuli vera kominn skilningur og breytingar á því sem hingað til hefur verið hvað varðar kostnað vegna gleraugnanotkunar barna.