132. löggjafarþing — 28. fundur,  23. nóv. 2005.

Ráðstöfun hjúkrunarrýma.

153. mál
[13:36]
Hlusta

Ásta Möller (S):

Virðulegi forseti. Það er réttmæt ábending hjá hv. þingmanni að sérstakra úrræða sé þörf fyrir þá sjúklinga sem eru heilabilaðir og eru undir 67 ára aldri og geta ekki verið lengur heima hjá sér. En ég legg áherslu á að þetta fólk eldist og allar breytingar hjá fólki sem er heilabilað eru þeim erfiðari en flestum öðrum, óáttun og slíkt kemur fram. Þau úrræði sem þurfa að vera til staðar þarf því að mínu mati að þróa í tengslum við hjúkrunarheimili þannig að breytingin sé sem allra minnst þegar fólk færist frá einu þjónustuformi yfir til annars.

Ég vil í þessu sambandi jafnframt benda á að í svari heilbrigðisráðherra við fyrirspurn minni á 130. löggjafarþingi kemur fram að um 30 einstaklingar eru langlegusjúklingar og undir 35 ára aldri. Það er hópur sem þarf sérstakrar skoðunar við sem er vítt og breitt um kerfið, reyndar eru flestir á hinum ýmsu deildum Landspítala – háskólasjúkrahúss. Við þurfum líka að huga að huga að þörfum þeirra (Forseti hringir.) eins og heilabilaðra sjúklinga undir 67 ára aldri.