132. löggjafarþing — 28. fundur,  23. nóv. 2005.

Ráðstöfun hjúkrunarrýma.

153. mál
[13:37]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Ásta R. Jóhannesdóttir) (Sf):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin þótt ég sé ekki sátt við þau. Hann segir að hann telji fullkomlega eðlilega staðið að því að úthluta hjúkrunarrýmum fyrir yngri alzheimersjúklinga. Það hefur komið fram hjá fagaðilum að ekki er unnt fyrir yngri alzheimersjúklinga að sækja um pláss á hjúkrunarheimilunum eftir að breyting var gerð á reglunum. Það er alls ekki eðlilegt.

Mér þætti fróðlegt að heyra frá hæstv. ráðherra hversu margir ungir heilabilaðir hafa komist inn á hjúkrunarheimili eftir 1. september, eftir að þessar reglur voru settar. Mál þessara sjúklinga voru í ágætum farvegi áður en reglurnar voru settar. Þetta er því tilbúið vandamál sem gerir það að verkum hjúkrunarheimilunum er lokað fyrir ungum heilabiluðum sem þurfa sérstaka þjónustu.

Núna bíða sex manns þess að komast á öldrunardeild Landakots og þeim mun fjölga. Ég spyr: Er hæstv. ráðherra tilbúinn að opna fyrir umsóknir rafrænt fyrir þann hóp þannig að hann eigi sama aðgang að hjúkrunarrýmum og aðrir með alzheimersjúkdóminn? Ég veit að það er auðvelt tæknilega. Ég hef upplýsingar um það en það virðist vanta viljann. Ungir alzheimersjúklingar eru með öldrunarsjúkdóm. Þeir þurfa þjónustu miðað við þörf en ekki eftir aldri. Á Norðurlöndunum er hvergi farið eftir aldri við innlagnir á hjúkrunarheimili heldur eftir þörfinni.

Ég hvet hæstv. ráðherra að skoða reglurnar sem hann hefur látið setja í ráðuneytinu. Þær eru mjög flóknar. Það á að senda mjög persónulegar upplýsingar út og suður, margar umsóknir fyrir hvern sjúkling og síðan upp í ráðuneyti. Auðvitað eiga þessir sjúklingar að búa við sömu aðstöðu og aðrir sem eru veikir og þurfa á hjúkrunarþjónustu að halda. Ég hvet hæstv. ráðherra til að skoða þetta gaumgæfilega því ég trúi ekki að hann telji eðlilega að verki staðið.