132. löggjafarþing — 28. fundur,  23. nóv. 2005.

Íslenskir friðargæsluliðar eða hermenn í Afganistan.

161. mál
[13:45]
Hlusta

utanríkisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Herra forseti. Það eru ákveðnar lykilforsendur sem fyrirspyrjandi gefur sér í þessu máli sem eru rangar. Þess vegna get ég ekki svarað þessari fyrirspurn lið fyrir lið eins og venja er, vegna þess að það er ekki þannig að íslenskir friðargæsluliðar taki þátt, eins og segir í spurningunni: „í hernaðarverkefnum innan endurreisnarsveita alþjóðlega öryggisliðsins í Afganistan“. Þannig orðar fyrirspyrjandi þetta. Það er enn síður þannig, eins og það er kallað í fyrirspurninni, að til sé: „vísir að íslenskum herdeildum á erlendri grund“. Kjarni málsins í þessu er sá, nú sem fyrr, að íslenskir friðargæsluliðar eru borgaralegir sjálfboðaliðar, enda hvorki til að dreifa hér á Íslandi hermönnum né her. Íslenskir friðargæsluliðar geta því ekki tekið að sér hernaðarleg verkefni, heldur sinna þeir eingöngu borgaralegum störfum. Þeir hafa starfað undir merkjum og skipulagi vopnaðs friðargæsluliðs sem í eru hermenn annarra ríkja. Þeir hafa þurft að klæðast einkennisbúningum og bera tignarheiti í skipulagi slíks friðargæsluliðs. Hvort tveggja er að ósk þeirra sem íslenska friðargæslan starfar með og forsenda samstarfsins af þeirra hálfu. Þá bera íslenskir friðargæsluliðar vopn til sjálfsvarnar. Öll þessi atriði eiga við um verkefni friðargæslunnar í Afganistan og hafa átt við fólk í íslenskri friðargæslu frá árinu 1994 er íslenskir læknar og hjúkrunarfólk hóf fyrst þátttöku í friðargæslu í Bosníu-Hersegóvínu, fyrst með norsku friðargæsluliði og síðar bresku. Ég tel að friðargæsla af þessu tagi sé í raun og veru hluti af borgaralegri skyldu Íslendinga í alþjóðasamfélaginu og það eigi ekki að þurfa að takast mikið á um það á Alþingi ef menn á annað borð telja að Ísland hafi eitthvað fram að færa og til málanna að leggja á þessu sviði.

Friðargæsluliðarnir okkar starfa núna í endurreisnarsveitum, svokölluðum Provincial Reconstruction Teams, í norðurhluta Afganistans með Norðmönnum og Finnum og í vesturhlutanum með Litháum og Dönum. Með þessum hætti er Ísland þátttakandi í endurreisnarstarfinu í hinu stríðshrjáða landi, Afganistan. Hlutverk endurreisnarsveitanna þar er margþætt. Íslensku gæsluliðarnir vinna að þeim þáttum verkefnisins sem er á færi borgaralegra liðsmanna. Starf þeirra felst m.a. í því að þeir fara um og kanna stöðu mála í þorpum og sveitum og einnig til að afla upplýsinga og gera tillögur um úrbætur til viðeigandi hjálparsamtaka og alþjóðastofnana. Aðalatriðið er að íslenskir friðargæsluliðar í Afganistan sinna borgaralegum þáttum í friðargæslunni en bera vopn til sjálfsvarnar og hljóta þjálfun í því skyni. Hins vegar getur friðargæsla kannski eðli málsins samkvæmt aldrei verið alveg hættulaus því þar sem hún er fyrir hendi og hennar er þörf getur ófriður, eðli málsins samkvæmt, brotist út að nýju. Það er einmitt vegna þess að íslenskir friðargæsluliðar eru borgaralegir sem hafðar hafa verið sérstakar gætur á þróun mála í Afganistan til að tryggja sem best öryggi þeirra. Þetta er gert með því að fá vikulega í hendur mat yfirstjórnar friðargæsluliðsins og Atlantshafsbandalagsins á öryggisástandinu í landinu og á einstökum svæðum. Um þetta fjallaði ég nokkuð ítarlega í ræðu minni hér á Alþingi 17. nóvember síðastliðinn. Þar kom einnig fram að vegna aukinnar spennu í norðurhluta landsins á undanförnum vikum hefði verið ákveðið að hætta þátttöku í endurreisnarsveit á því svæði en halda áfram í vesturhlutanum að öllu óbreyttu. Segja má að hér sé um fyrirbyggjandi ráðstöfun að ræða því þótt um sé að ræða skærur á milli heimamanna þá hafa árásir verið gerðar á fulltrúa óháðra hjálparsamtaka og á friðargæsluliða. Starfsmenn hafa verið kvaddir frá svæðinu vegna þessara breyttu aðstæðna.