132. löggjafarþing — 28. fundur,  23. nóv. 2005.

Kjarabætur til vistfólks á dvalar- og hjúkrunarheimilum.

159. mál
[13:56]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Ásta R. Jóhannesdóttir) (Sf):

Herra forseti. Ég spyr hæstv. heilbrigðisráðherra um hvort áform séu upp um að bæta kjör þeirra sem dvelja á dvalar- og hjúkrunarstofnunum. En vasapeningafyrirkomulagið sem þar tíðkast hefur farið mjög fyrir brjóstið á mörgum, og þá sérstaklega öldruðum.

Ég vitna hérna í blaðagrein úr Morgunblaðinu frá 7. október síðastliðnum með yfirskriftinni: Alþingismenn okkar munu aldrei þurfa að sækja um vasapeninga. Þar fjallar Halldór Þorsteinsson um aðbúnað aldraðra og segir meðal annars: „Þegar menn eru vistaðir á opinberum stofnunum hvaða nafni sem þær kunna að nefnast, er þeim ekki beinlínis tekið með virktum. Öðru nær, þeir eru í einu orði sagt lítillækkaðir og auðmýktir.“

Í greininni talar hann einnig um sviptingu mannréttinda með vasapeningafyrirkomulaginu þar sem ellilífeyririnn rennur til að greiða fyrir vistina og vistmenn þurfi síðan að sækja um vasapeninga sem sé niðurlægjandi. Hér er ég að tala um þá aldraða sem nánast einvörðungu hafa almannatryggingagreiðslur sér til framfærslu en þeir missa þær greiðslur við að fara inn á hjúkrunarheimili eða stofnanir. Kjör þessa hóps aldraðra eru mjög bág. Þarna er um að ræða rúmlega 1.700 manns og síðan 230 öryrkja sem ég ætla að gera að umtalsefni í annarri fyrirspurn sem ég vonast til að hæstv. ráðherra svari mér í næsta fyrirspurnatíma, eftir viku.

Vasapeningarnir eru tæpar 22.000 kr. á mánuði og þeir skerðast um 65% þeirra tekna sem viðkomandi hefur yfir 7.000 kr. og falla alveg niður við 39.000 krónurnar. Þetta eru auðvitað óviðunandi kjör fyrir veikt fólk, fólk sem nánast ekkert getur veitt sér, hvað þá vikið einhverju að sínum nánustu. Þeir þurfa að kaupa ýmsar nauðsynjar, svo sem eins og snyrtivörur og ýmsa þjónustu, þó er það mismunandi eftir hjúkrunarstofnunum hversu mikið af þeirri þjónustu þeir þurfa að greiða. En þetta dugar svo sannarlega ekki einu sinni fyrir fötum til skiptanna. Þeir sem eiga rétt á lífeyrissjóði missa líka lífeyri sinn við að fara inn á stofnun en halda eftir 48.000 kr. sem er þó aðeins skárra hlutskipti.

En ég spyr hæstv. ráðherra: Finnst honum þetta kerfi og þessi kjör viðunandi? Og eru áform uppi um að breyta þeim? Ég minni á svar hæstv. ráðherra frá síðastliðnum mánudegi í óundirbúnum fyrirspurnatíma þar sem var spurt hvort þessi hópur fengi jólauppbótina sem launþegar og lífeyrisþegar munu fá nú 1. desember og hæstv. ráðherra talaði um að hann mundi bæta þessum hópi þetta með sanngjörnum hætti. Hvað er sanngjarn háttur fyrir þennan hóp sem er með um rúmlega 260.000 kr. í árstekjur, þ.e. fólkið með vasapeningana, rúmlega 1.700 aldraðir og 230 öryrkjar? Ég spyr hæstv. ráðherra: Hvað hyggst hann gera til að bæta kjör þessa fólks?