132. löggjafarþing — 28. fundur,  23. nóv. 2005.

Kjarabætur til vistfólks á dvalar- og hjúkrunarheimilum.

159. mál
[14:09]
Hlusta

Guðmundur Hallvarðsson (S):

Virðulegi forseti. Ég get tekið undir orð síðasta ræðumanns varðandi eftirlit með því hvaða þjónusta er veitt á hjúkrunarheimilum eða öldrunarstofnunum. Á hitt ber að benda að hér er einhver misskilningur í gangi, því ef farið er inn á vef heilbrigðisráðuneytisins er þar til sérstakt skilmálablað sem segir til um hvaða þjónustu eigi að veita. Þar kemur m.a. fram að hjúkrunarheimili og öldrunarstofnanir eiga að sjá um þvott fyrir einstaklinga. Hins vegar eru nokkur hjúkrunarheimili í borginni sem komast upp með að veita ekki þá þjónustu. Það er kapítuli út af fyrir sig.

Hvað varðar vasapeningana skulum við horfa til þess að á hjúkrunarheimilum geta daggjöld á mánuði verið allt frá 390 þús. og upp í 600 þús. eftir því hvaða hjúkrunarheimili eru skoðuð, hvort það er Sóltún eða önnur heimili. 10 þús. kr. vasapeningar eru í örfáum tilvikum. Við skulum ekki gleyma því heldur að margir eru með greiðslur úr lífeyrissjóði, sem betur fer, og þeir geta haldið lífeyrirssjóðstekjum sínum upp að 47 þús. kr. á mánuði. Það er því í mörg horn að líta hvað þetta áhrærir. (Forseti hringir.)

Að lokum vildi ég aðeins lýsa áhyggjum mínum af (Forseti hringir.) og vonast þó til að því verði sinnt en það eru sveigjanleg starfslok sem enn er ófrágengið (Forseti hringir.) við félag eldri borgara.

(Forseti (BÁ): Forseti vill árétta að ræðumenn haldi sig innan þeirra tímamarka sem gefin eru til að gera stuttar athugasemdir sem er aðeins ein mínúta.)