132. löggjafarþing — 28. fundur,  23. nóv. 2005.

Sjúkraflug til Ísafjarðar.

274. mál
[14:17]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (F):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Anna Kristín Gunnarsdóttir hefur beint til mín spurningum um sjúkraflug til Ísafjarðar.

Sem kunnugt er eru sjúkraflutningar, þar með talið sjúkraflug, á ábyrgð heilbrigðisstofnana samkvæmt lögum. Á árinu 2001 voru gerðir samningar um sjúkraflug á landsvísu og renna þeir samningar út í lok þessa árs. Þegar líða tók að lokum núverandi samnings var reynslan skoðuð með tilliti til þjónustu, breyttra samgangna á landi, þeirrar þjónustu sem heilbrigðisstofnanirnar eru í stakk búnar til að veita á hverjum stað og annarra aðstæðna sem lúta að þjónustunni.

Tími þótti til kominn að bæta þjónustuna á þann veg að aðalsjúkraflugvél skyldi vera sérútbúin flugvél sem eingöngu væri ætluð til þessara flutninga, búin hverfihreyflum og jafnþrýstibúnaði í farþegarými. Þessar kröfur gjörbreyta og bæta alla sjúkraflutningsgetu. Vélarnar geta farið hærra en áður, losnað við ókyrrð af fjöllum og þar af leiðandi er auðveldara að sinna sjúklingi er við þau skilyrði er flogið.

Ekki þarf að lýsa þeirri miklu framför sem felst í því að um sérútbúna vél er að ræða en ekki farþegavél sem sæti hafa verið tekin úr og laus búnaður settur inn í staðinn eins og hingað til hefur verið. Í þessar endurbætur var ráðist eftir mikla skoðun og hvatningu frá heilbrigðisstofnunum víða um land. Má í þessu sambandi geta þess að sjúkraflugvél sú sem verður notuð er af sömu tegund og flugvél Flugmálastjórnar, sem margir hafa augum litið.

Á síðasta samningstímabili var þeirri nýjung og framför komið á að sérlærður sjúkraflutningamaður fylgdi ávallt sjúkraflugvélinni sem staðsett var á Akureyri. Skapaðist við það mikil reynsla og sérþekking á aðstæðum í flugi. Einnig gaf það möguleika á að læknar í héruðum þyrftu ekki að yfirgefa héraðið og fylgja sjúklingum í sjúkraflug eins og áður tíðkaðist. Einnig gafst sá möguleiki að læknir sá sem kallaði til sjúkraflug gat beðið um að læknir fylgdi einnig með vélinni auk sjúkraflutningamannsins. Þessi þjónusta bauðst frá miðstöð sjúkraflugs á Akureyri og Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri, á svæðinu frá botni Hrútafjarðar norður og austur um til Hafnar í Hornafirði. Þessi bætta þjónusta bauðst ekki á Vestfjörðum og í Vestmannaeyjum þar sem einnig voru staðsettar sjúkravélar.

Í nýju útboði var gert ráð fyrir að hin stórbætta sjúkraflugvél þjónaði einnig Vestfjörðum. Var það gert í fullu samráði við starfsmenn og stjórn Fjórðungssjúkrahússins á Ísafirði. Einnig var fullt samráð haft við reynda flugmenn og flugrekstraraðila, sem og Landhelgisgæslu, um breytinguna enda er gert ráð fyrir að Landhelgisgæslan gæti þurft að senda þyrlu til Ísafjarðar við ákveðin skilyrði, líkt og oft hefur þurft að gera undanfarin ár. Við undirbúning þessara breytinga var gert ráð fyrir óbreyttu ástandi á Þingeyrarflugvelli en við bætt skilyrði þar, þegar þar að kemur, mun þjónustan að sjálfsögðu verða enn tryggari.

Líkt og ég hef áður getið er þessi breyting gerð í fullu samráði og sátt við starfsfólk og stjórnendur Fjórðungssjúkrahússins á Ísafirði, enda taldi ég það algjört skilyrði þessa. Breytingin felur í sér að flugvél er ekki staðsett á Ísafirði en í staðinn kemur mun öflugri, sérbúin sjúkraflugvél, með öflugri mannafla og búnaði. Í þessu sambandi er rétt að minna á að þegar um sjúkraflug frá Ísafirði er að ræða er sjúklingurinn fluttur frá einu vel búnu sjúkrahúsi til annars, en ekki eins og sums staðar er að ekkert sjúkrahús er á staðnum. Búnaður sjúkrahússins á Ísafirði hefur verið í stöðugri skoðun og er ætlunin að bæta fremur við hann í samráði við stjórnendur og starfsfólk þess sjúkrahúss þannig að búnaðurinn verði sem allra bestur.

Eins og þingmenn hafa mögulega tekið eftir undirritaði ég samning um sjúkraflug á norðursvæði síðastliðinn laugardag á Akureyri. Það er vissa mín að verulegt framfaraskref sé með því stigið í sjúkraflutningum í lofti. Það byggist á því að sérútbúin sjúkraflugvél er tekin í gagnið. Ég er fullviss um að það mun bæta til muna þjónustuna í byggðum landsins við þá sem hennar þurfa að njóta og á hana þurfa að treysta. Það mun bæta aðstöðu Vestfirðinga í þessu efni einnig.