132. löggjafarþing — 28. fundur,  23. nóv. 2005.

Sjúkraflug til Ísafjarðar.

274. mál
[14:26]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (F):

Herra forseti. Ég vil leggja áherslu á þrjú atriði í þessu sambandi. Í fyrsta lagi mun Landhelgisgæslan verða bakland í þessum efnum. Í öðru lagi þarf að gæta að því að framkvæmdir á Þingeyrarflugvelli dragist ekki úr hömlu. Viðunandi aðstaða þar bætir enn þar úr þótt hún sé ekki forsendan fyrir þessum ákvörðunum.

Í þriðja lagi, sem er kannski mikilvægast og verður að undirstrika, er um að ræða flutning sjúklinga frá vel útbúnu sjúkrahúsi sem við þurfum að búa enn betur úr garði. Sjúkrahúsið á Ísafirði er það vel búið og hefur það mikla möguleika til að taka við sjúklingum að hlutfallslega þarf sjaldnar í sjúkraflug frá Ísafirði en frá öðrum landshlutum á norðanverðu landinu, fyrir utan Eyjafjarðarsvæðið. Það sýnir að þessi þjónusta er mjög góð heima fyrir. Hins vegar geta alltaf komið upp dæmi sem þarfnast skjótrar úrlausnar. Ég geri mér grein fyrir því. Þess vegna er reiknað með því að Landhelgisgæslan geti gripið inn í ef á þarf að halda.

En meginatriðið er að sjúkraflutningar frá landshlutanum verða stórbættir. Sem betur fer hafa þeir ekki allir verið akút en (Forseti hringir.) það getur samt komið fyrir og þá (Forseti hringir.) kemur Landhelgisgæslan inn í það. (Forseti hringir.) Ég vil undirstrika að þarna er horft til öryggis fjórðungsins.