132. löggjafarþing — 28. fundur,  23. nóv. 2005.

Tæknifrjóvganir.

276. mál
[14:39]
Hlusta

Ásta Möller (S):

Virðulegi forseti. Það er ástæða til að þakka þessa umræðu um tæknifrjóvganir og starfsemi Art Medica. Seint á síðasta ári var tekin um það ákvörðun, eins og kom fram í máli hæstv. ráðherra, að flytja tæknifrjóvgunardeildina út fyrir Landspítalann og í einkarekstur. Það var að mínu mati mjög góð ákvörðun. Hins vegar var skrefið ekki stigið til fulls að því leyti að fjármagnið til þjónustunnar fer enn þá í gegnum Landspítala – háskólasjúkrahús, sem er mjög sérkennileg ráðstöfun. Þannig að í stað þess að Tryggingastofnun sjái um kaup á sérfræðiþjónustu, eins og verið hefur fram til þessa, þá er settur inn milliliður sem er Landspítali – háskólasjúkrahús, sem var í fyrstu mótfallinn breytingunni. Þess vegna hlýt ég að spyrja hæstv. ráðherra: Mun fyrirkomulaginu verða breytt og hverja telur hann vera hagkvæmnina í að hafa Landspítala – háskólasjúkrahús sem millilið? (Forseti hringir.)