132. löggjafarþing — 28. fundur,  23. nóv. 2005.

Athugasemdir mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna.

273. mál
[14:50]
Hlusta

dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S):

Herra forseti. Spurt var um skilgreiningu á hryðjuverkum í almennum hegningarlögum. Með lögum 99/2002 var í fyrsta sinn sett almenn skilgreining á hryðjuverkum í almenn hegningarlög, nánar tiltekið í 100. gr. a. Markmið laganna var að gera nauðsynlegar lagabreytingar til þess að íslenska ríkið uppfyllti skuldbindingar sínar samkvæmt þremur alþjóðasamþykktum á vegum Sameinuðu þjóðanna.

Í fyrsta lagi var um að ræða alþjóðasamning Sameinuðu þjóðanna frá 1997 til að koma í veg fyrir hryðjuverkasprengingar. Í öðru lagi alþjóðasamning Sameinuðu þjóðanna frá 1999 til að koma í veg fyrir fjármögnun hryðjuverkastarfsemi og loks ályktun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna nr. 1373 frá 28. september 2001 sem samþykkt var í kjölfar hryðjuverkanna sem framin voru í Bandaríkjunum hinn 11. september 2001.

Í greinargerð með frumvarpi því sem varð að lögum 99/2002 kemur fram að rík þörf sé talin á að setja refsilöggjöf sem kveði skýrt á um að fjármögnun hryðjuverka sé sjálfstæður refsiverður verknaður. Þörf væri á að hryðjuverk yrðu skilgreind í refsilögum og þau talin til alvarlegustu afbrota.

Við skilgreiningu á hryðjuverkum var stuðst við ákvæði alþjóðlegra sáttmála til að sporna við hryðjuverkastarfsemi. Segir í greinargerð að tillögur frumvarpsins við skilgreiningu hryðjuverka séu reistar á sama grunni og stefnt sé að með rammaákvörðun Evrópusambandsins frá 6. desember 2001. Þyki eðlilegt og til samræmingar að notast við sömu skilgreiningu og flest Evrópuríki. Þessi stefna er í samræmi við samvinnu Evrópuríkja til að berjast gegn hryðjuverkum sem hefur fyrst og fremst verið á vettvangi Evrópuráðsins en á síðari árum einnig á vettvangi Evrópusambandsins.

Virðulegi forseti. Mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna taldi umrætt ákvæði hegningarlaganna sem sett var með fyrirmynd í alþjóðlegum samþykktum og til að framfylgja ályktunum frá þeirri alþjóðlegu stofnun sem mannréttindanefndin sjálf er hluti af vera óljóst og óskýrt. Reyndar kom fram í máli nefndarmanna að sama gilti um löggjöf margra annarra ríkja og almennt væri mjög örðugt að skilgreina hryðjuverk. Taldi nefndin eigi að síður að Ísland þyrfti að móta og taka upp nákvæmari skilgreiningu á hryðjuverkum. Tel ég að við þurfum áfram að gæta samræmis við aðrar þjóðir í þessum efnum og er það í raun nauðsynlegt í ljósi alþjóðlegra skuldbindinga. Nú stendur fyrir dyrum að athuga hvaða lagabreytingar þurfi að gera svo að unnt sé að fullgilda nýjan samning Evrópuráðsins gegn hryðjuverkum sem undirritaður var af Íslands hálfu í maí síðastliðnum. Mun í því sambandi verða farið yfir orðalag umrædds ákvæðis almennra hegningarlaga og hvort nauðsynlegt sé að breyta því. Stefni ég að því að leggja fram frumvarp um aðgerðir gegn hryðjuverkum á þessu löggjafarþingi.

Þá var vikið að því að mannréttindanefndin lýsti áhyggjum sínum yfir miklum fjölda tilkynntra nauðgana, samanborið við fjölda lögsókna vegna nauðgunar og mæltist til þess að ekki yrði látið hjá líða að refsa fyrir nauðgun. Af hálfu Íslands var sýnt fram á tiltölulega hátt hlutfall sýknudóma og að þetta háa hlutfall gæfi vísbendingu um að ákvörðun um saksókn væri tekin frekar en ekki. Þetta hefur verið staðfest af embætti ríkissaksóknara. Hlutfall sýknudóma er hærra í þessum brotaflokki en öðrum. Þegar kemur að kynferðisbrotunum hefur embætti ríkissaksóknara meðvitað fylgt þeirri stefnu að ákæra í vafatilvikum.

Árið 2003 var ákært í 16 málum samkvæmt 194.–198. gr. hegningarlaganna en þar af var sýknað í 11 málum. Af sjö dómum sem fallið hafa í málum frá 2004 samkvæmt þessum ákvæðum hefur verið sýknað í þremur. Enn er ódæmt í þremur málum. Samkvæmt upplýsingum frá embætti ríkissaksóknara hefur verið reynt að gæta sérstaklega að þessum brotaflokki. Reynt hefur verið að veita lögreglu aðhald við rannsókn þessara mála og gætt þess að leggja vafatilvik fyrir dóm.

Í þessu sambandi vil ég geta þess að undanfarna mánuði hefur Ragnheiður Bragadóttir prófessor unnið í mínu umboði að endurskoðun á hluta kynferðisbrotakafla almennra hegningarlaga, þar á meðal ákvæða um nauðgun. Mun hún senn skila mér frumdrögum að frumvarpi og býst ég við að leggja frumvarp um það efni fram á Alþingi í kringum jólahlé.