132. löggjafarþing — 28. fundur,  23. nóv. 2005.

Athugasemdir mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna.

273. mál
[14:55]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. dómsmálaráðherra fyrir svörin. Mér þykir gott til þess að vita að fram skuli eiga að koma, helst á þessu þingi, frumvarp frá hæstv. ráðherra um nýja skilgreiningu á hryðjuverkum þar sem hæstv. ráðherra ætlar að leggja fram frumvarp um aðgerðir gegn hryðjuverkum.

Ég held að við hljótum að verða að taka tillit til þessara ábendinga. Ég var satt að segja í hópi þeirra þingmanna sem höfðu áhyggjur af þessu þegar ákvæðin voru sett í hegningarlögin á sínum tíma, að við værum með afar loðið og óskýrt orðalag. Við töldum þá að hæstv. dómsmálaráðherra ætti að endurskoða þau sjónarmið sem hann talaði þá fyrir en ég sé að hann kemur til með að endurskoða þetta í ljósi þessara tilmæla. Ég tel það vera af hinu góða.

Varðandi hlutfall sýknudóma í nauðgunarmálum tengist það auðvitað þeirri umræðu sem er almennt í gangi núna varðandi aðgerðaáætlun gegn kynbundnu ofbeldi. Ríkisstjórnin hefur tekið afar vel í tilmæli frjálsra félagasamtaka sem hafa komið fram og verið formlega kynnt ríkisstjórninni. Hún hefur tekið vel í að setja fram almenna aðgerðaáætlun gegn kynbundnu ofbeldi, og inn í þá aðgerðaáætlun fléttuðu þau félagasamtök sem að henni stóðu ákveðnar áhyggjur um hlutfall sýknudóma í nauðgunarmálum. Það hlýtur að vekja athygli að af þeim fjölda mála sem koma til kasta dómstóla — ég er bara með tölur frá 2003 en samkvæmt þeim bárust ríkissaksóknara 65 nauðgunarmál — af þeim 65 voru 49 felld niður en ákært í 16. Aðeins fjórum þeirra lauk með sakfellingu, 6,2% kæra í (Forseti hringir.) nauðgunarmálum leiddu til dóms yfir sakborningi.

Við hljótum að verða að taka þessar (Forseti hringir.) staðreyndir til skoðunar.