132. löggjafarþing — 28. fundur,  23. nóv. 2005.

Löggæsla á skemmtunum í Skagafirði.

277. mál
[15:02]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Sigurjóni Þórðarsyni fyrir að vekja athygli á þessu máli. Ég held að það sé mjög mikilvægt að þjónusta lögreglumanna sé byggð upp í héraði og að það sé þá í hreinum undantekningartilvikum sem lögregla sé sótt lengra að. Í orðinu sérsveitir felst að þær eru sérbúnar. Ég spyr hæstv. ráðherra hvort þær séu ekki jafnvel með vopn undir höndum. Það er ekkert sérstaklega góð auglýsing eða kynning á landshlutum að senda þurfi sérstaka sérsveit lögreglu til að vera viðstödd eðlilegt samkomuhald. Maður vill helst (Forseti hringir.) vera laus við það. Ég hvet hæstv. ráðherra til að treysta stöðu löggæslunnar í Skagafirði þannig að sem minnst þurfi að reyna á þessa þjónustu.