132. löggjafarþing — 28. fundur,  23. nóv. 2005.

Löggæsla á skemmtunum í Skagafirði.

277. mál
[15:03]
Hlusta

Anna Kristín Gunnarsdóttir (Sf):

Frú forseti. Ástæða þess að á Sauðárkróki hefur verið valin sú leið í einstaka tilfellum að kalla til hinar svokölluðu sérsveitir er sú að embættið er illa haldið fjárhagslega. Í hinum minni embættum lögreglunnar víða um landið fá lögreglumenn á launum gjarnan fasta greiðslu árlega vegna þess að leyfilegt er að kalla í þá á ballvaktir og þegar sérstaklega háttar til. Þegar embættin eru jafnilla haldin og fyrir norðan þýðir það að kraftur þessara manna er ekki nýttur. Þeir þiggja þessa föstu árlegu greiðslu en hins vegar er ekki hægt að kalla í þá til að sinna störfum þegar þörf er á vegna þess að embættið hefur ekki efni á því.

Peningurinn er heldur látinn koma úr öðrum vasa, í þessu tilfelli úr vasa á Akureyri. Að sjálfsögðu þarf að kosta vinnu starfsmanna hvaðan sem þeir koma, og í þessu tilfelli bætist ferðakostnaður við.