132. löggjafarþing — 28. fundur,  23. nóv. 2005.

Kynbundið ofbeldi.

195. mál
[15:21]
Hlusta

Margrét Frímannsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka þá umræðu sem hér er og þann vilja sem kemur fram hjá hæstv. ráðherra til að beita sér fyrir úrbótum og aðgerðaáætlun gegn kynbundnu ofbeldi. Hæstv. ráðherra sagði reyndar að aðgerðaáætlunin mundi fyrst og fremst beinast að því að koma í veg fyrir heimilisofbeldi þar sem konur og börn væru þolendur.

Hæstv. ráðherra sagði að ef börn sem þola heimilisofbeldi fengju ekki rétta meðferð eða hjálp væru þau líkleg til að beita ofbeldi þegar þau verða eldri. Þar er um að ræða bæði drengi og stúlkur og mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra hvort skoðun hafi farið fram á því, könnun, hversu margir drengir eða karlar eru beittir heimilisofbeldi, kynbundnu ofbeldi, andlegu eða líkamlegu.