132. löggjafarþing — 28. fundur,  23. nóv. 2005.

Kynbundið ofbeldi.

195. mál
[15:22]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þessi ágætu svör. Ég vissi alveg að ríkisstjórnin er búin að leggja ákveðnar metnaðarfullar línur. Ég er ekki alveg viss um að það sé mér að þakka að fréttatilkynningin kom þarna 18. október. Ég þakka hins vegar félagasamtökunum fyrst og síðast sem lögðu upp í hendur ríkisstjórnarinnar fjögurra blaðsíðna drög að aðgerðaáætlun. Ég þakka hæstv. ríkisstjórn fyrir að taka þessi drög og nánast gera að sínum því að ég sé að í þeim drögum sem ég hef undir höndum tölum við um sömu áherslur og ríkisstjórnin gerir. Ég fagna því að ríkisstjórnin skuli líka ætla að halda áfram þessu samstarfi við félagasamtökin. Það er auðvitað algert lykilatriði til að við getum náð árangri í þessum málum að ríkisstjórnin uppgötvi það sem mér finnst hún vera búin að gera í þessum málaflokki, að félagasamtökin eru lykilatriði. Þau eru tenging hennar út í veruleikann. Í gegnum félagasamtökin fá þau upplýsingar sem þau í sjálfu sér geta ekki aflað sjálf, má segja, þannig að það að tengja saman stjórnvöld og félagasamtökin á þennan hátt er auðvitað til fyrirmyndar.

Sömuleiðis er til fyrirmyndar að ríkisstjórnin skuli dagsetja þessa hluti. Hún sagði í fréttatilkynningunni hvenær ætti að ráða starfsmann, 1. nóvember. Hann var ráðinn eftir því sem ég best veit 1. nóvember. Hann á að starfa til loka febrúar og 3. mars á að liggja fyrir aðgerðaáætlun. Svona á að vinna og ekki bara í þessum málaflokki, heldur í fleiri málaflokkum.

Eins og ég segi, hér má hæstv. ráðherra eiga það og ríkisstjórnin öll að hér er staðið vel að málum. Ég er sátt við að ákveðin áhersla skuli vera á málefni barna í þessari aðgerðaáætlun núna. Við vitum að fjöldi kynferðisbrotamála gegn börnum hefur nær tvöfaldast á nokkrum árum en sakfellingum í slíkum málum hefur hins vegar hlutfallslega fækkað. Það má auðvitað ekki gerast að í samfélagi okkar látum við slíkt vitnast.

Ég fagna þessari áherslu. Ég fagna því að ríkisstjórnin skuli vinna á þeim nótum sem hún er að gera. Ég stend með ríkisstjórninni í þessu máli.