132. löggjafarþing — 28. fundur,  23. nóv. 2005.

Sönnunarbyrði samkvæmt jafnréttislögum.

280. mál
[15:27]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Mörður Árnason) (Sf):

Forseti. Það er satt sem sagt er að árið 2005 er ekki fyrst og fremst við lög að sakast þegar minnst er á launamisrétti kynjanna. Í rauninni hafa menn sagt fram og aftur að lögin séu það fullkomin að ekkert sé við þau að sakast í þessu efni.

Jafnréttislöggjöf okkar var vissulega framsýn á sínum tíma þegar hún var sett, á 7. og kannski einkum 8. áratugnum, en hún er a.m.k. að hluta til komin til ára sinna og þess vegna er vakin upp sú spurning hér hvort hana þurfi ekki að endurskoða. Hin beina ástæða þessarar fyrirspurnar er rannsókn danska lögfræðingsins Byrials R. Bjørsts sem hann kynnti á fundi Jafnréttisráðs 27. október 2005 þar sem hæstv. ráðherra var staddur, og við nokkur fleiri. Hann talaði þar um jafnréttislögin okkar í ljósi evrópsks réttar.

Hann minntist á þrjá staði í jafnréttislögunum. Hann sagði í fyrsta lagi að misræmi væri á milli íslensks réttar og Evrópuréttar um það að hér þyrfti kærandinn að sanna að karl og kona nytu ekki sömu kjara fyrir sömu eða sambærilega vinnu. Það kemur fram í 23. gr. Ef kærandinn getur það þarf atvinnurekandinn hér að sanna að munurinn sé ekki kynbundinn, en í Evrópuréttinum þarf kærandinn hins vegar að leggja fram gögn sem virðast sýna að um sé að ræða beina eða óbeina mismunun. Það er nóg að þau virðist sýna það og þá er það atvinnurekandans að sanna að þessi munur sé annaðhvort ekki til eða sé eðlilegur, þ.e. ekki kynbundinn beint eða óbeint.

Í öðru lagi sagði Byrial um ákvæði okkar um jafnverðmæt og sambærileg störf í 14. gr. og víðar að þessi ákvæði kynnu að fara á svig við Evrópurétt. Þar væru engin takmörk á því hvaða störf mætti bera saman og ekki væri heppilegt að nota þetta orðalag þar sem konur eru oft einar eða í miklum meiri hluta í ákveðnum störfum og þess vegna erfitt að finna jafnverðmæt og sambærileg störf.

Í þriðja lagi sagði Byrial að ákvæði laganna um sama atvinnurekanda væru sennilega orðin úrelt, þótt ekki væri nema vegna þess að nú tíðkast það að menn stofna fyrirtæki um hvert svið atvinnurekstrar og þess vegna gætu menn lent í því að konur sem áður voru kannski hjá einum atvinnurekanda með körlum ynnu nú í einhvers konar dóttur- eða frænkufyrirtæki og karlar þeir sem hægt væri að bera sig saman við ynnu í öðru, og nefndi til þessa fleiri ástæður.

Ég ákvað að bera þetta undir félagsmálaráðherra (Forseti hringir.) með þeim fyrirspurnum sem ég hef hér lagt fram og vonast eftir góðum svörum frá honum.