132. löggjafarþing — 28. fundur,  23. nóv. 2005.

Sönnunarbyrði samkvæmt jafnréttislögum.

280. mál
[15:35]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Mörður Árnason) (Sf):

Forseti. Þá gerist það sem sjaldan gerist að ég lýsi yfir mikilli ánægju með svör ráðherrans í þessu efni og sérstaklega þá yfirlýsingu hans að á næstu vikum verði hafist handa um endurskoðun þessarar löggjafar sem var auðvitað kannski tilgangurinn bak við þessar fyrirspurnir þrjár í einni sem fram voru bornar.

Ég tek undir það með ráðherra að það sé vægast sagt óheppilegt að sönnunarbyrði hjá okkur sé erfiðari en í Evrópurétti. Það er sem sagt ekki bara óheppilegt heldur líka óleyfilegt þannig að ég túlki orð ráðherrans og ég túlka þau orð sem hann lét hér út úr sér þannig að Byrial Bjørst hafi í raun og veru verið með alvarlega athugasemd við löggjöf okkar með gagnrýni sinni á þetta atriði.

Ráðherra fjallaði einnig um aðrar athugasemdir Bjørsts á jákvæðan hátt, þ.e. að þær yrðu teknar til athugunar og rannsóknar í þessari endurskoðunarvinnu. Ég get ekki annað en verið ánægður með það og vonast til að þessari endurskoðun verði fylgt eftir af röggsemi þannig að við stöndum ekki að baki öðrum Evrópuþjóðum í löggjöfinni því það er það sem við höfum getað hrósað okkur af hingað til að gera ekki.

Ég vil svo að lokum þakka þingheimi mikla athygli og áhuga á þessu máli og vonast til að þingmenn haldi áfram að fylgjast með jafnréttislöggjöfinni og breytingum á henni eins rösklega og raun ber vitni hér í dag.