132. löggjafarþing — 28. fundur,  23. nóv. 2005.

Sönnunarbyrði samkvæmt jafnréttislögum.

280. mál
[15:37]
Hlusta

félagsmálaráðherra (Árni Magnússon) (F):

Hæstv. forseti. Ég tel rétt að hnykkja á því, eins og kom fram í máli mínu fyrr, að ég tel að þau gagnrýnisatriði sem komu fram hjá margtilvitnuðum dönskum fræðimanni á málþingi Jafnréttisráðs séu þess eðlis að það sé full ástæða fyrir okkur til að fara yfir þau við þá endurskoðun sem ég hef hér boðað að ég vilji að fari fram á lögunum og mun hrinda því verkefni í framkvæmd.

Ég þakka enn og aftur hv. þingmanni fyrir að taka þetta mál upp. Ég er sammála honum um það og tek undir að full ástæða er fyrir okkur til þess ekki bara að standa jafnfætis þeim þjóðum sem við helst viljum bera okkur saman við þegar kemur að jafnréttismálum heldur tel ég og veit að við hv. þm. Mörður Árnason erum sammála um að við eigum að vera þar í fararbroddi. Við höfum allar forsendur til þess. Við erum það á mjög mörgum sviðum. Til okkar er litið á mörgum sviðum og við eigum að halda þeirri stöðu í samfélagi þjóðanna.