132. löggjafarþing — 29. fundur,  24. nóv. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[10:40]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Mér er snöggtum rórra yfir þeim upplýsingum sem hv. þm. Arnbjörg Sveinsdóttir færir okkur, að yfirleitt séu ráðherrarnir ekki sofandi undir umræðum hér.

Hins vegar verð ég að taka undir með hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni þegar hann fer fram á að forseti íhugi að fresta þessari umræðu. Ég held að þetta sé í fyrsta skipti sem ég man eftir að hér eru fimm ráðherrar ekki við. Þrír eru í útlöndum og tveir eru með fjarvist. Ég spyr nú hæstv. forsætisráðherra: Hvar er agavaldið á þessu heimili? Ég minnist þess að hér áður fyrr gengu þær dagskipanir út til ráðherra frá hæstv. forsætisráðherra að þeir yrðu veskú við umræðu um fjárlög.

Frú forseti. Mér er sérstaklega umhugað um tvo málaflokka sem hér eru til umræðu í dag, heilbrigðismál og menntamál. Hæstv. heilbrigðisráðherra er hér eins og hann er alltaf því að hann sinnir starfi sínu vel. Við þingmenn þurfum ekki að kvarta yfir honum. En það er mikið að gerast í menntamálum. Við vitum það. Við sjáum að blöðin eru full af ádeilum á menntamálaráðherra. Það er verið að skera niður í háskólum og hér liggja fyrir tillögur sem varða menntamál. En hvar er hæstv. menntamálaráðherra? Jú, hæstv. menntamálaráðherra er í Senegal. Hæstv. menntamálaráðherra er á fundi um „international cultural policy“ í Senegal. Þetta eru upplýsingar sem ég fékk rétt áðan í menntamálaráðuneytinu þegar ég spurðist fyrir um hvar sú ágæta kona væri. (Gripið fram í.)

Ég verð að segja það, frú forseti, af því að ég ætla hér ekki í neina efnislega umræðu um málaflokkinn, að mig rekur í rogastans að ráðherra sem fer með jafnmikilvægan og viðkvæman málaflokk skuli flatmaga í Senegal á einhverjum sérkennilegum fundi sem hlýtur að vera miklu minna virði en menntamál íslensku þjóðarinnar og láta það bera upp á nákvæmlega þann tíma þegar við erum að ræða fjárveitingar til málaflokksins. (Gripið fram í.)

Ég verð að segja það, frú forseti, að ég vænti þess — og gef mínum ágæta vini hæstv. forsætisráðherra þau góðu ráð í veganesti — að hann sjái til þess í framtíðinni að ráðherrar mikilvægra málaflokka séu ekki í öðrum heimsálfum á þeim degi þegar verið er að ræða málaflokka þeirra hér. Frú forseti. Jafnvel þó að ráðherrar kunni stöku sinnum að vera á faraldsfæti þá hlýtur að vera hægt að skipuleggja það þannig að alþingismenn fái tækifæri til að eiga við þá orðastað á mikilvægasta degi þingsins þegar verið er að ræða um fjárveitingar. En auðvitað er miklu skemmtilegra að vera í Senegal (Gripið fram í.) heldur en hér undir orðahríð og jafnvel í orrahríð, en auðvitað aldrei öðru heldur en málefnalegum umræðum, hv. þingmaður. (Gripið fram í.)