132. löggjafarþing — 29. fundur,  24. nóv. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[10:43]
Hlusta

forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég veit að hv. þm. Össur Skarphéðinsson hefur gegnt ráðherraembætti og veit að slíku embætti fylgja ýmsar skyldur, þar á meðal samskipti við önnur lönd og samskipti við alþjóðasamfélagið. Mér finnst alveg óþarfi að tala háðslega um ákveðin lönd, sérstaklega ríkin í Afríku. Ég veit ekki til þess að þau séu minna virði en önnur ríki í heiminum. Það er jafnmikil ástæða að hafa samskipti við Afríku og aðra heimshluta. Mér finnst nú óþarfi að tala með þeim hætti.

Það liggur hins vegar fyrir að hæstv. fjármálaráðherra getur í einu og öllu svarað fyrir öll atriði fjárlaganna (Gripið fram í.) og það hefur verið venjan í gegnum tíðina. (SJS: Nei.) Ef beina þarf einhverju til annarra ráðherra þá mun ríkisstjórnin vera fullfær um að taka þátt í umræðum hér í dag um þessi mál.

Ég hef nú verið hérna í rúm 30 ár og ég veit ekki til þess að það hafi verið venja að hver einasti ráðherra væri viðstaddur fjárlagaumræðu. Það er alveg nýtt fyrir mér. (Gripið fram í.) Það er hins vegar alveg ljóst að ríkisstjórnin getur tekið þátt í þessari umræðu í dag. Ef hv. þingmenn hafa einhverjar fyrirspurnir þá verða ráðherrar hér til svara, til að svara fyrir þá málaflokka sem hér er verið að ræða. Ekki mun verða neinn skortur á því. Ég vænti þess að hv. þingmenn treysti þeim ráðherrum sem hér eru viðstaddir til þess að geta svarað þeim ef þeir hafa einhverjar fyrirspurnir. En ég átti nú von á því að hér yrðu aðallega til umræðu niðurskurðartillögur frá Samfylkingunni því ég man ekki betur en talsmaður þeirra í ríkisfjármálum hafi boðað það að laga þyrfti fjárlagaafganginn um 14 milljarða. Því gæti vel verið að við sem erum í ríkisstjórninni vildum líka spyrja Samfylkinguna um hvað hafi orðið af þessum niðurskurði sem var boðaður í upphafi fjárlagaumræðunnar.