132. löggjafarþing — 29. fundur,  24. nóv. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[11:17]
Hlusta

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Einar Már Sigurðarson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það má segja að ræða hv. þm. Magnúsar Stefánssonar hafi nú ekki síður verið athyglisverð fyrir það sem ekki var sagt í henni, en þar sem ég mun hér í ræðu á eftir fara betur yfir þau mál vil ég nú aðeins einbeita mér að einu máli.

Það vakti sérstaka athygli að hv. þingmaður nefndi hvergi orðið Byggðastofnun. Það er athyglisvert að í áliti iðnaðarnefndar sem er samhljóða, þ.e. öll nefndin stendur að álitinu, segir m.a., með leyfi forseta:

„Iðnaðarnefnd leggur áherslu á mikilvægi þess að óvissu um starfsemi Byggðastofnunar verði eytt.“

Nú er það ljóst, frú forseti, að ekki er mikill tími til stefnu til þess að eyða þeirri óvissu ef það á að gerast í tengslum við fjárlög eða fjáraukalög. Í morgun komu tillögur varðandi fjáraukalög þessa árs og þar er hvergi minnst á Byggðastofnun, þannig að ég spyr hv. þingmann: Er ekki gert ráð fyrir því að eyða óvissu um starfsemi Byggðastofnunar?