132. löggjafarþing — 29. fundur,  24. nóv. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[11:19]
Hlusta

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Einar Már Sigurðarson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er auðvitað gott að halda í vonina og við vonum að sú von beri árangur. En eins og ég sagði í fyrra andsvari mínu er ljóst að það er afskaplega skammur tími til stefnu. Hér erum við með 2. umr. um fjárlög 2006 og það er ekkert minnst á hvernig eigi að eyða þessari óvissu. Það stefnir í að það verði ekki gert í fjáraukalögum fyrir árið 2005 miðað við það sem kom fram á fundi fjárlaganefndar í morgun og þá er aðeins eftir 3. umr. um fjárlög. Það styttist óðum í að hún fari fram þannig að það eru í raun og veru bara örfáir dagar til stefnu.

Það er því óhjákvæmilegt að spyrja hv. þingmann nánar, vegna þess að það er ekki bara þannig að hv. þingmaður sé formaður fjárlaganefndar og ætti þar af leiðandi að vita nokkuð um það hvað hugsanlega er í pípunum, heldur er hann einnig í nefnd á vegum iðnaðarráðuneytisins um starfsemi Byggðastofnunar þannig að hann hlýtur að geta upplýst okkur örlítið betur um hvort það sé virkilega svo að kæruleysið eigi að vera slíkt gagnvart starfsemi stofnunarinnar að engar líkur séu á því að þessari óvissu verði eytt.