132. löggjafarþing — 29. fundur,  24. nóv. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[11:21]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þm. Magnúsi Stefánssyni fyrir ræðu þar sem hann fór víða yfir og vitaskuld er hæstv. ríkisstjórn að gera margt sem horfir til framfara. Mig langar, frú forseti, til þess að nota þetta tækifæri til að vekja máls á einu tilteknu atriði sem ég tók ekki eftir að hv. þingmaður dræpi á í máli sínu, það eru málefni Barna- og unglingageðdeildar Landspítalans. Við vitum að aðstaða þar er ekki nógu góð, húsnæðið er löngu sprungið og þetta aðstöðuleysi hefur leitt til þess að unglæknar fara ekki lengur í sérhæfingu í barnageðlækningum. Stofnunin hefur 180 milljónir í sjóðum en hana vantar 90 milljónir frá ríkinu til þess að það sé hægt að byggja við.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hann telji mögulegt að komast að samkomulagi um að reyna að finna leiðir til þess að hægt sé að ráðast í þessa viðbyggingu.