132. löggjafarþing — 29. fundur,  24. nóv. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[11:24]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Niðurstaða úttektar Evrópusamtaka háskóla núna fyrir nokkrum vikum bar með sér að Háskóli Íslands er í kreppu. Hann fær næstlægstu framlög allra sambærilegra háskóla í Evrópu, einungis háskólinn í Króatíu er neðar en Háskóli Íslands og vermir þar botnsætið. Skólinn er í raun, samkvæmt skýrslunni, akademískt afrek vegna þeirrar þröngu fjárhagsstöðu sem hann býr við og staðan kallar á akademíska afturför skólans ef ekki verður brugðist mjög hressilega við því.

Skýrsla Ríkisendurskoðunar frá því í vor sagði tvennt: Annaðhvort fær skólinn verulega aukin opinber framlög eða heimild til skólagjalda. Núverandi fjárlagafrumvarp tekur á hvorugu. Því fer fjarri að skólinn fái nægjanlegt fjármagn til að rétta úr kútnum, hann þyrfti að fá hundruð milljóna aukalega til að þar yrði einhver veruleg bót á. Því spyr ég hv. formann fjárlaganefndar: Hvorn kostinn á að taka og af hverju er ekki annar hvor kosturinn tekinn og hverjar er forsendurnar fyrir því að það er ekki gert?