132. löggjafarþing — 29. fundur,  24. nóv. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[11:26]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er vissulega óheppilegt að hæstv. menntamálaráðherra sé erlendis akkúrat núna þegar öll þessi mál brenna á háskólastiginu og menntakerfinu öllu. Háskólinn á Akureyri er t.d. í mikilli kreppu, er að leggja niður tvær deilda sinna, rifa seglin og þarf að draga verulega saman, þannig að skólanum er verulega ógnað. Núverandi niðurskurður og sparnaður sem þar á sér stað innan dyra gengur mjög nærri skólanum. Til að hann mætti halda úti núverandi starfsemi og þyrfti ekki að skera svo mikið niður að það ógni stöðu skólans og þar með kannski kjölfestunnar í íslenskri byggðastefnu á síðustu árum, þyrfti skólinn að fá 80 millj. kr. til viðbótar.

Því spyr ég hv. formann fjárlaganefndar hvort það sé ekki möguleiki að koma til móts við þessa bráðaþörf skólans, þann bráðavanda sem Háskólinn á Akureyri á í með því að bæta við og auka framlög til hans um þessar litlu 80 miljónir þannig að skólinn þurfi ekki að vera í þeirri öng sem hann er núna í.