132. löggjafarþing — 29. fundur,  24. nóv. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[11:29]
Hlusta

Frsm. meiri hluta fjárln. (Magnús Stefánsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þm. Jón Bjarnason leyfir sér oft að segja ýmislegt í þessum ræðustól sem er mjög langt frá veruleikanum. Hér heldur hann því fram að það eigi að fara að skerða fjárheimildir sjúkrahúsa og nefnir til sögunnar tiltekin sjúkrahús. Þetta er alrangt. Ef þingmaðurinn les tillögurnar og áttar sig á þeim og vill skilja þær rétt þá er hér um að ræða lækkun á því sem við köllum pott í heilbrigðisráðuneytinu, sem er ætlaður til sjúkrahúsa almennt. Það er ekki verið að skerða fjárheimildir einstakra sjúkrahúsa. Ég bið hv. þingmann að fara rétt með.

Varðandi hitt sem hann nefndi þá kemur fram í tillögunum að það er fallið frá því að fella niður svonefndan bensínstyrk, sem var mikið rætt hér í haust, og það vita þeir sem skoðuðu það mál að í því fólst ýmislegt, m.a. áform um að hækka tilteknar bætur til þeirra sem þær fá. Þetta mál er í heild sinni einfaldlega dregið til baka og ég held því að hv. þingmaður hljóti að geta verið ánægður miðað við þau mótmæli sem málið fékk fyrr í haust.