132. löggjafarþing — 29. fundur,  24. nóv. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[12:21]
Hlusta

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þingmenn Samfylkingarinnar létu móðan mása við 1. umr. um fjárlög ársins 2006 og töluðu um að auka þyrfti aðhald í ríkisfjármálum og þeir lofuðu og hétu því að þeir mundu tvöfalda þann afgang sem ríkisstjórnarflokkarnir áætluðu í 1. umr. um fjárlög. (Gripið fram í.)

Nú ber svo við, hæstv. forseti, að þingmenn Samfylkingarinnar ætla að stofna til nýrra útgjalda upp á 3.168 millj. kr. Hvaðan ætla þeir að taka þá peninga? Jú, þeir ætla að hækka skatta frá því frumvarpi sem hér liggur fyrir um 2.250 millj. kr., taka það úr vösum fólksins í landinu. Er þetta ábyrg stefna? Og hvar ætla þeir svo að ná auknu aðhaldi? Jú, það er í einhverjum almennum aðgerðum svo sem að fresta yfirfærslu ónotaðra heimilda ráðuneyta frá fyrra ári um 3 milljarða. Ég óska eftir yfirliti frá Samfylkingunni hvar hún vill taka þessa 3 milljarða og aðrar almennar tillögur í þeim efnum. Við viljum fá að sjá hvar þeir (Forseti hringir.) vilja spara í ríkisrekstri.