132. löggjafarþing — 29. fundur,  24. nóv. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[12:22]
Hlusta

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Einar Már Sigurðarson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil í upphafi segja að ástæðulaust er fyrir hv. þingmann að æsa sig eitthvað við upphaf umræðunnar vegna þess, eins og ég margoft sagði, verður skilmerkilega farið yfir tillögur okkar á eftir í sérstakri ræðu þar sem gerð verður sérstaklega grein fyrir þeim. (Gripið fram í: Þú talar í hring.) Ég var að fara, hv. þingmaður, yfir nefndarálit nefndarinnar og mér heyrist á hv. þingmanni að honum hafi þótt ræðan jafnvel fulllöng þannig að ekki hefði verið á það bætandi. Ég fór hins vegar gróflega yfir tillögurnar — það er nú verkaskipting hjá okkur, hv. þingmaður, þó að þú kannski kannist ekki við það í þínum flokki.

En ástandið er hins vegar ósköp einfaldlega þetta, hv. þingmaður, að við erum af ábyrgð að taka á ríkisfjármálunum. Tillögur okkar ganga ekki út á skattahækkun. Hv. þingmaður hefur greinilega ekki lært nógu mikið hjá hæstv. fjármálaráðherra þegar þeir voru að hvíslast hér á meðan ég flutti ræðu mínu, þannig að hv. þingmaður verður líklega að ræða betur við hæstv. fjármálaráðherra því að ég trúi því ekki að hæstv. fjármálaráðherra kunni ekki betur að lesa úr tillögum okkar.

Málið er að þessi aukna tekjuöflun vegna skatta (Forseti hringir.) kemur vegna þess að (Forseti hringir.) við ætlum að herða skatteftirlit.

(Forseti (JBjart): Forseti minnir hv. þingmann á að beina orðum sínum til forseta.)