132. löggjafarþing — 29. fundur,  24. nóv. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[12:25]
Hlusta

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Einar Már Sigurðarson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður hefur ekkert róast við fyrri orð mín. Ég fer því að hafa áhyggjur af þessari óþolinmæði hv. þingmanns. En við skulum vona að hann róist þegar líður á daginn því að ég get endurtekið að hv. þingmaður mun fá mjög greinargott yfirlit yfir þetta þannig að ég vona að áhyggjur hans hverfi þegar að því kemur. (BJJ: Við skulum vona það.)

Hins vegar var ansi áberandi að hv. þingmaður hafði miklar áhyggjur af ábyrgð. Ég skil vel óróleika hv. þingmanns gagnvart því vegna þess að ég vona að hv. þingmaður hafi hlýtt sæmilega á orð mín og hafi þar af leiðandi tekið eftir því að þar voru færð mikil rök fyrir því að ábyrgðarleysi ríkisstjórnarinnar er gífurlegt í ríkisfjármálum. Meðal annars var reynt að upplýsa hv. þingmenn um hvernig hægt væri að nota fjárlög til þess að stjórna ríkisfjármálum, en það er vissulega eitt af því sem hefur skort. Hv. þingmaður þarf því vonandi í hverri einustu ræðu sinni sem hann flytur hér í dag að fjalla um ábyrgð og vonandi getur hann haft einhver áhrif í flokki sínum. En það er skiljanlegt, frú forseti, að hv. þingmaður hafi (Forseti hringir.) gífurlegar áhyggjur af ábyrgðarleysi ríkisstjórnarinnar.