132. löggjafarþing — 29. fundur,  24. nóv. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[12:29]
Hlusta

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Einar Már Sigurðarson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Já, það er rétt, hv. þingmaður er óvenju rólegur, ég skal taka undir það og ber að fagna því. En það er væntanlega vegna þess að ræða mín hefur haft svona góð áhrif á hann og ég vona að þannig verði þetta áfram fram eftir degi. Við, ég og hv. þingmaður, höfum nefnilega, frú forseti, yfirleitt verið sammála um að það þyrfti að sýna framkvæmdarvaldinu miklum mun meira aðhald hér hjá löggjafarvaldinu. Það er auðvitað augljóst mál að það er best gert í gegnum fjárlögin. En því miður eins og aðstæður eru í dag hefur meiri hlutinn á Alþingi, enn síður minni hlutinn, möguleika á að veita slíkt aðhald vegna þess að upplýsingar skortir til þess.

Frú forseti. Rétt er að vekja athygli hv. þingmanns á því að við teljum, og það er rauði þráðurinn hjá okkur, að afgangurinn þurfi að vera meiri en kemur fram í tillögum meiri hlutans og þess vegna gerum við tillögur um að hann verði 4 milljörðum meiri en meiri hlutinn gerir ráð fyrir.