132. löggjafarþing — 29. fundur,  24. nóv. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[12:31]
Hlusta

Einar Oddur Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður eyddi töluverðum hluta ræðu sinnar í umræðu um efnahagsmál. Þar sagði hann m.a. að hann teldi miklar líkur á því að tekjur ríkisins á næsta ári yrðu mun hærri en gert er ráð fyrir í fjárlagafrumvarpinu. Þetta vakti athygli mína og mig langar til að vita hvernig í veröldinni þetta má vera.

Hann eyddi líka löngum tíma í að segja frá því að það þyrfti meiri festu í ríkisfjármálin. Hver eru nú þessi ríkisfjármál? Það eru framkvæmdirnar, þær hafa dregist saman um einn þriðja. Það eru vextirnir, þeir hafa dregist saman um helming. Það eru afskriftirnar sem eru óbreyttar. Hvað er þá eftir? Það eru millifærslurnar, samneyslan, það eru launin. Og hvar hefur þessi hv. þingmaður verið á undanförnum árum þegar við höfum rætt laun í opinberum rekstri? Ég hef hvergi séð hann og hvergi heyrt hans getið.

Hann sagði líka að Seðlabankinn stæði hér einn í baráttunni gegn verðbólgu. Hann tekur kannski undir þá meinloku bankans um að enn eigi að hækka stýrivexti, (Forseti hringir.) skildi ég það rétt?