132. löggjafarþing — 29. fundur,  24. nóv. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[15:34]
Hlusta

Einar Oddur Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Gjörðin er lögleg samkvæmt fjárreiðulögunum þegar um er að ræða starfsemi eða stofnun sem er til staðar. Það er alveg skýrt.

Það sem ég var að reyna að segja, virðulegi forseti, var að það er mjög nauðsynlegt fyrir löggjafann sem ber ábyrgð á fjárreiðum ríkisins — og það á enginn að geta skuldbundið ríkið nema Alþingi — að þegar farið er í svona framkvæmdir — ég er ekkert á móti svona framkvæmdum. Þetta getur verið mjög eðlileg og góð leið — á að gera Alþingi grein fyrir öllum þeim skuldbindingum sem því eru samfara og hvað það kosti þannig að fyrir liggi hvað þetta er og hver eigi að borga, að það sé gert fyrir fram. Samkvæmt eðli fjárreiðulaganna svífur sú hugsun þar yfir vötnunum og þess vegna verður að gera þetta líka varðandi einkaframkvæmdina. Við verðum að setja þetta þannig inn að við vitum hvað verið er að skrifa undir, hverjum beri að borga og hvenær.